Fékk 18 mánuði fyrir skattalagabrot

Héraðsdómur Reykjavíkur veitti manninum 18 mánaða dóm en konunni átta …
Héraðsdómur Reykjavíkur veitti manninum 18 mánaða dóm en konunni átta mánaða dóm fyrir meiri háttar skattalagabrot. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi á miðvikudag karlmann í 18 mánaða fangelsi og konu í átta mánaða fangelsi fyrir skattalagabrot. Báðir dómarnir eru skilorðsbundnir en fólkið var ákært fyrir „meiriháttar brot gegn skattalögum“; konan sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi einkahlutafélagsins Aukaafls og maðurinn sem daglegur stjórnandi og varastjórnarmaður félagsins.

Er þeim gefið að sök að hafa ekki gert skil á virðisaukaskatti að andvirði rúmlega 9,5 milljónir króna vegna uppgjörstímabila á árunum 2014, 2015 og 2016, þá hafi þau ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, né heldur hafi þau staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna vegna greiðslutímabila á árunum 2014, 2015 og 2016, samtals að fjárhæð tæpar 19 milljónir króna fyrir konuna en tæpar 20 milljónir króna fyrir manninn.

Bæði kröfðust sýknu í málinu, en maðurinn viðurkenndi þó sök. Konan neitaði hins vegar sök og sagðist aðeins hafa verið skráð fyrir félaginu að nafninu til. Hún hefði engin afskipti haft af rekstri þess, en verið skráð sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi að beiðni mannsins sem er sambýlismaður hennar.

Sagðist konan ekki hafa gert sér grein fyrir ábyrgð sinni. Hún hefði sinnt venjulegum skrifstofustörfum fyrir félagið, skrifað bréf og fært tímaskýrslur, en maðurinn hefði séð um allt sem tengdist rekstrinum sem var að útvega menn til verka á sviði byggingariðnaðar.

Hún hefði þannig undirritað leiðréttingarskýrslu vegna virðisaukaskatts að beiðni mannsins og stofnað bankareikning en hann annast millifærslur. Þá hefði hún átt í samskiptum við Tollstjóra og lögmannsstofu vegna launamála að beiðni mannsins. Hann hefði átt við veikindi að stríða og hún því verið undir pressu með að aðstoða hann. Sjálf hefði hún því engar forsendur til að gera athugasemdir við fjárhæðirnar sem fram komu í ákærunni.

Maðurinn rengdi ekki upphæðina sem gefin var upp í dóminum, en sagðist hafa verið verið kominn langt niður vegna veikinda sinna og lagði m.a. fram læknisvottorð þar sem fram kom að hann hefði legið á sjúkrahúsi um þriggja vikna skeið. Segist maðurinn ekki hafa treyst sér til að fara inn í félagið, hvorki í stjórn né sem eigandi, og því hefði konan séð um sífellt fleiri verkefni að hans beiðni.

Það er mat dómsins að framburður konunnar sé í andstöðu við gögn málsins sem gefi til kynna að hún hafi starfað sem framkvæmdastjóri og verið ágætlega inni í rekstrinum. Hún hefði verið í tölvupóstssamskiptum við Tollstjóra og lagt drög að samkomulagi um greiðslur opinberra gjalda. Þar hefði hún útskýrt að slæm fjárhagsleg staða væri tilkomin vegna þess að félagið hefði tapað stórri kröfu af völdum gjaldþrots viðskiptavinar, en nú væri útlitið bjartara. Telur dómurinn það ekki standast að konan hafi átt í þessum samskiptum við Tollstjóra eða lögmannsstofuna „algjörlega fjarstýrð af ákærða“ líkt og hún haldi fram.

Er það mat dómsins að brotin teljist meiriháttar þegar litið er til fjárhæðanna og horfði dómstóllinn m.a. við niðurstöðu sína til þess að maðurinn hlaut á síðasta ári 10 mánaða dóm fyrir samskonar brot. Hann hlaut því 18 mánaða skilorðsbundinn dóm og konan átta mánaða dóm, sem einnig er skilorðsbundinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert