Tími rúðuskafanna kominn aftur

Veðrið á hádegi í dag, föstudag.
Veðrið á hádegi í dag, föstudag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Þokkalegt veður er á sunnanverðu landinu en skýjað og svalt er fyrir norðan og austan. Minnkandi úrkoma verður í nótt en á morgun hvessir.

Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands kemur fram að rigning og allhvöss eða hvöss austan- og norðaustanátt með rigningu verði í kvöld en hægari og úrkomulítið nyrðra fram eftir kvöldi og jafnvel í nótt. Mun hægari vindur verður um hádegi á sunnudag og víða styttir upp nema á Norðausturlandi þar verður áfram strekkingsvindur og rigning. „Samfara þessum vindi kemur heldur mildara loft og því litlar líkur á að snjór verði á fjallvegum, en nú er kominn sá árstími að hafa ber í huga að hálka geti myndast með skömmum fyrirvara og að tími rúðuskafna sé kominn aftur,“ skrifar veðurfræðingurinn í hugleiðingum sínum í morgun.

Veðurhorfur næstu daga eru þessar:

Á laugardag:
Vaxandi austan- og norðaustanátt, 8-18 m/s undir kvöld, hvassast við suðurströndina. Skýjað, en úrkomulítið fram á kvöld, en fer þá að rigna sunnanlands. Hiti 2 til 10 stig, mildast á Suðvesturlandi. 

Á sunnudag:
Austan og norðaustan 5-13 m/s og rigning, en minnkandi úrkoma á sunnanverðu landinu síðdegis. Hiti 4 til 10 stig, mildast sunnanlands. 

Á mánudag:
Norðaustanátt og skúrir eða dálítil rigning fyrir norðan, en lengst af bjartviðri syðra. Hiti 2 til 11 stig, mildast suðvestanlands. 

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:
Útlit fyrir ákveðna og vætusama norðaustanátt með heldur hlýnandi veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert