Allir á bandi Íslands

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands, skilur Lionel Messi eftir í …
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands, skilur Lionel Messi eftir í grassverðinum. Ragnar Sigurðsson hvetur sinn mann til dáða. Eggert Jóhannesson

„Sama hvar maður kom, allir voru á bandi Íslands og vildu að liðinu gengi vel. Straumarnir voru ótrúlega jákvæðir. Það spurðist fljótt út að við værum langminnsta þjóðin til að taka þátt í lokamóti HM og hver heldur ekki með Davíð á móti Golíat? Síðan komu stuðningsmenn liðsins bara svo vel fyrir og voru svo glaðir að erfitt var fyrir hlutlausa að hrífast ekki með. Liðinu hefur gengið svo vel undanfarin ár að okkur Íslendingum þykir sjálfsagt að strákarnir hafi komist á HM en auðvitað er það ekki þannig. Þetta var mikið afrek og heimsbyggðin skynjaði það.“

Þetta segir Skapti Hallgrímsson sem sendi í vikunni frá sér bókina Ævinýri í Austurvegi: Strákarnir okkar á HM í Rússlandi. Þar rifjar hann ævintýrið upp í máli og myndum. 

Að dómi Skapta var HM í Rússlandi frábærlega heppnað mót. „Auðvitað má deila um það hvort Rússar hafi átt að halda mótið, vegna afstöðu þeirra í mannréttindamálum, svo sem til samkynhneigðra, en þeim var úthlutað HM 2018 og þegar á reyndi var framkvæmdin til fyrirmyndar. Einhverjir höfðu áhyggjur af öryggisþættinum en hann var ekkert vandamál; Rússarnir voru með allt á hreinu í þeim efnum. Svo var stemningin alveg frábær, innan vallar sem utan. Eitt risastórt partí. Fólk var greinilega komið til að njóta og skemmta sér.“

Í sturtu með Ásgeiri

Texti bókarinnar er í dagbókarstíl og skrifaði Skapti beinagrindina úti – í hita leiksins. „Þetta er dagbók í fyrstu persónu, eintölu, þar sem ég upplifi mótið, leikina, mannlífið og allt í kringum HM. Ég ber þessa upplifun líka saman við fyrri landsliðsferðir en umgjörðin í kringum íslenska landsliðið núna og þegar ég var að byrja sem íþróttafréttamaður er auðvitað eins og svart og hvítt. Í gamla daga rölti maður bara inn í klefa til strákanna og spjallaði við þá eftir leiki; Ásgeir Sigurvinsson, Atla Eðvaldsson og þá pilta. Tók jafnvel bara blað og blýant með sér inn í sturtuna. Í dag þarf þetta allt að fara í gegnum KSÍ eftir ströngustu leiðum. Það er auðvitað faglegra en því er ekki að neita að ákveðinn sjarmi var yfir hinu. Einhvern veginn svo íslenskt.“

Skapti skráði sig inn á mótið sem ljósmyndara en ekki blaðamann. Það var af ráðnum hug enda kveðst hann vera í öðrum tengslum við leikinn með þeim hætti; mun nær sviðinu. Af ríflega 200 myndum í bókinni á hann um 170 sjálfur. Eggert Jóhannesson, ljósmyndari Morgunblaðsins, á nokkrar, þar á meðal kápumyndina, eins Þorgrímur Þráinsson, starfsmaður landsliðsins, einkum þær sem teknar eru bak við tjöldin, svo sem inni í búningsklefa liðsins. Nokkrir aðrir eiga myndir í bókinni. Sjálfur náði Skapti að mynda öll helstu augnablikin; fyrsta mark Íslands, þegar Hannes varði vítið frá Messi og svo framvegis.

Spurður um vægið milli orða og mynda segir Skapti þetta renna saman – vera sama verkið.

Nánar er rætt við Skapta í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Skapti Hallgrímsson hefur fjallað um knattspyrnu í tæplega fjörutíu ár.
Skapti Hallgrímsson hefur fjallað um knattspyrnu í tæplega fjörutíu ár. Kristinn Magnússon
Marina Zolotariova og Evgeny Golitsyn, til hægri, sem búa á …
Marina Zolotariova og Evgeny Golitsyn, til hægri, sem búa á Íslandi, studdu Ísland í Moskvu. Skapti Hallgrímsson
Gyfi Þór Sigurðsson fellir grímuna óvænt á frídegi strákanna, er …
Gyfi Þór Sigurðsson fellir grímuna óvænt á frídegi strákanna, er jafnan alvarlegur á svip. Og ljósmyndarinn er sáttur við augnablikið. Skapti Hallgrímsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert