Sakar Ríkisútvarpið um lögbrot

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

„Stundum er leikurinn ójafn að óþörfu. Við höfum séð ríkisfyrirtæki og ríkisstofnanir hasla sér völl á nýjum sviðum í samkeppni við einkaaðila,“ sagði Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins.

„Við verðum vitni að því að ríkisfyrirtæki fara ekki að lögum eins og ljóst er með Ríkisútvarpið sem fer ekki að lögum um Ríkisútvarpið, 4. grein, þar sem kemur skýrlega fram að Ríkisútvarpinu beri að stofna dótturfélög til þess að halda utan um samkeppnisreksturinn og skilja alfarið á milli almannaþjónustunnar og samkeppnisrekstrar.“

Sjálfstæðir fjölmiðlar hafi í sumar þurft að lifa við það að Ríkisútvarpið þurrkaði upp auglýsingamarkaðinn. „Við getum ekki metið það tjón sem einkareknir fjölmiðlar urðu fyrir. Og við sjáum að Ríkisútvarpið núna er komið í samkeppni við einkaaðila við að leigja tækjabúnað og aðstöðu til kvikmynda- og sjónvarpsgerðar.“

Óli Björn benti á að samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið ætti þetta hins vegar að gerast í formi dótturfélags. Það hefði átt að hafa gerst 1. janúar síðastliðinn en núna væri september rúmlega hálfnaður og ekkert bólaði á því að Ríkisútvarpið tæki ákvörðun um að fara að lögum.

„Svo getum við velt því upp hér hvernig við ætlum að styðja við og reyna að styrkja starfsemi frjálsra fjölmiðla, sjálfstæðra fjölmiðla. Við munum örugglega taka til umræðu tillögur menntamálaráðherra í þeim efnum. En er ekki best að byrja þá á því, herra forseti, að láta ríkisstofnanir fara almennt að lögum?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert