Lífið verið einn rússíbani síðan

Fyrsti vinningur Lottósins síðasta laugardagskvöld féll í skaut ungra foreldra tveggja barna á höfuðborgarsvæðinu. Eftir að hafa komið börnunum sínum í svefn á föstudagskvöldið fór eiginmaðurinn út en konan kom sér fyrir með tölvuna og fór að vafra um netið. Sá hún þá auglýsingu um fimmfaldan Lottópott og ákvað að kaupa miða á netinu.

„Hún gaf sér góðan tíma, valdi tölurnar sjálf í nokkrar raðir en lét kerfið velja rest og það var einmitt ein af sjálfvöldu röðunum sem var með nákvæmlega sömu tölur og voru dregnar út á laugardaginn. Og ekki nóg með það heldur var það eina röðin með þessum tölum og þar með fékk hún allan vinninginn sem nam rúmlega 51,1 milljón króna. Eftir útdráttinn sá eiginmaðurinn að vinningsmiðinn hafði verið keyptur á lotto.is og því var töluverður spenningur að opna síðuna og skoða tölurnar og að þeirra sögn er lífið búið að vera einn rússíbani síðan,“ segir í fréttatilkynningu frá Íslenskri getspá.

Hvað eftir annað hafi þau sest niður, hann með tölvuna og hún með símann, og borið tölurnar saman. „Það var ekki fyrr en þau voru búin að hitta starfsfólk Getspár sem þau leyfðu sér að trúa því að vinningurinn væri í raun þeirra. Þessi unga fjölskylda sér nú fram á gjörbreytt landslag í sínum fjármálum og þeirra fyrsta hugsun var að þiggja fjármálaráðgjöf sem vinningshöfum stendur til boða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert