Veltu björgum með risavöxnu kúbeini

Jón Haukur Steingrímsson og Stefán Geir Árnason, jarðverkfræðingar hjá Eflu, …
Jón Haukur Steingrímsson og Stefán Geir Árnason, jarðverkfræðingar hjá Eflu, að störfum í hlíðum Esjunnar í morgun. Ljósmynd/Magnús Bjarklind

Vel gekk að rúlla niður björgum við Esjuna nærri toppi Þverfellshorns í morgun. Þrír verkfræðingar á vegum Eflu fóru fyrir aðgerðunum ásamt starfsfólki Skógræktarfélags Reykjavíkur sem sá um að vakta göngustíga við fjallið. Gönguleiðum upp Esjuna var lokað í um það bil tvo klukkutíma á meðan aðgerðunum stóð. 

„Við vorum búnir að skoða þetta og það hefur verið í umræðunni um töluvert skeið um steina sem eru að fara af stað,“ segir Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu. Ásamt honum sáu þeir Stefán Geir Árnason og Magnús Bjarklind um að koma björgunum niður. 

Til að koma björgunum af stað notuðu þeir tveggja og …
Til að koma björgunum af stað notuðu þeir tveggja og hálfs metra langar ál- og stálstangir sem eru almennt notaðar til að hreinsa loft í jarðgöngum. Ljósmynd/Magnús Bjarklind

„Það voru þarna nokkrir stórir stuðlar við algengustu gönguleiðirnar. Það er best að bolta þá upp, en ef það var ekki í boði þá reyndum við að láta þá fara,“ segir Jón Haukur. Í verkið notuðu þeir tveggja og hálfs metra langar ál- og stálstangir sem eru almennt notaðar til að hreinsa loft í jarðgöngum. „Þetta er eiginlega eitt stórt kúbein,“ segir Jón Haukur.

Félagarnir fóru á fjóra staði fjallinu og voru alls tvo tíma að koma björgunum niður. Björgin skoppuðu niður samkvæmt áætlun og klofnuðu mis mikið á leið sinni. Töluvert af björgunum fór yfir göngustíga og greina má holur og rispur í stígnum eftir hrunið.

Jón Haukur segir verkið hafa heppnast vel og að ekki hafi verið verra að byrja daginn á smá líkamsrækt.

Stefán Geir Árnason mundar „risakúbeinið.“
Stefán Geir Árnason mundar „risakúbeinið.“ Ljósmynd/Magnús Bjarklind
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert