Gagnrýndu ráðherra harðlega

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins.
Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingmenn stjórnarandstöðuflokka gagnrýndu Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra harðlega á Alþingi í dag. Þeir sögðu það fráleit vinnubrögð að kynna ekki drög að samgönguáætlun á þingi áður en boðað var til blaðamannafundar síðasta föstudag.

Ég varð óneitanlega mjög undrandi þegar ég heyrði í útvarpsfréttum að samgönguráðherra væri í þann veginn að kynna samgönguáætlun á Umferðarmiðstöðinni, sem út af fyrir sig er vel valinn staður hjá ráðherranum. Þetta gerir ráðherrann án þess að Alþingi hafi áður verið kynnt samgönguáætlun,“ sagði Ólafur Ísleifsson, formaður Flokks fólksins.

Hann bætti því við að flestallir þingmenn stjórnarflokka hafi fengið afrit eða kynningu og séu meðvitaðir um inntak samgönguáætlunar á meðan þingmenn stjórnarandstöðu hafi ekkert séð. 

Ég leyfi mér að segja að ég hefði ekki átt von á því frá samgönguráðherra að hann sýndi Alþingi óvirðingu af því tagi sem ég tel felast í þessari gjörð, að kynna þessa áætlun í samgöngumálum utan veggja Alþingis áður en hann er búinn að kynna hana hér,“ bætti Ólafur við.

Þingmenn úr öllum flokkum stjórnarandstöðu tóku undir með Ólafi en Þorsteinn Víglundsson í Viðreisn sagði meðal annars að þetta væri með eindæmum. Allir sögðu þeir að það væri erfitt að geta ekki svarað því hvernig þeim lítist á samgönguætlun, því þeir hefðu ekki fengið hana í hendurnar.

Sigurður Ingi sagði að munur væri á samgönguáætlun og tillögu ráðherra að samgönguáætlun. Ekkert væri samgönguáætlun fyrr en það hefði fengið þinglega meðferð. Hann sagði málið þó óheppilegt og að hann myndi gera allt sem hann gæti til að gögn kæmust til allra þingmanna eins fljótt og auðið er. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert