Horfi til Breta vegna þjóðarleikvangs

Tracey Crouch á fundinum í dag.
Tracey Crouch á fundinum í dag. mbl.is/​Hari

Tracey Crouch, íþróttamálaráðherra Bretlands, vonast til að Íslendingar horfi til Breta varðandi hönnun og samstarf þegar kemur að því að endurnýja Laugardalsvöll. Þetta kom fram í ræðu hennar á ráðstefnu um þjóðarleikvang sem var haldin í höfuðstöðvum Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, í dag.

Ráðstefnan var samvinnuverkefni Bresk-íslenska viðskiptaráðsins, breska sendiráðsins á Íslandi og KSÍ. Þar komu ráðamenn fram, auk reyndra manna sem hafa unnið við hönnun stórra og minni íþróttaleikvanga, ásamt því að skipuleggja íþrótta- og annars konar viðburði. Engin ákvörðun hefur verið tekin varðandi nýjan þjóðarleikvang en ráðstefnunni var ætlað að varpa ljósi á þá möguleika sem eru í boði í Bretlandi varðandi hönnun og skipulagningu.

Mikil reynsla í Bretlandi 

Crouch greindi í byrjun ræðu sinnar frá samstarfi Bretlands og Íslands í gegnum tíðina og nefndi að viðskipti á milli landanna nemi 1,6 milljörðum punda á ári hverju, yfir 320 þúsund Bretar hafi heimsótt Ísland á síðasta ári og að fjöldi Íslendinga ferðist til Englands til að sjá leiki í ensku úrvalsdeildinni. Hún bætti því að Englendingar hafi lagt sitt af mörkum varðandi góðan árangur íslenska karlalandsliðsins með því að tapa gegn þeim í úrslitakeppni EM fyrir tveimur árum og uppskar við það hlátur fundargesta.

Hún sagði Breta hafa haldið fjölmarga stóra íþróttaviðburði í gegnum árin og staðið sig framúrskarandi vel. Sem dæmi nefndi hún Ólympíuleikana í London árið 2012, auk þess sem Emirates-leikvangur knattspyrnuliðsins Arsenal væri magnað dæmi um sérþekkingu Breta á sviði hönnunar. Bætti hún við að mjög erfitt væri að segja svona góða hluti um Arsenal þar sem hún væri harður aðdáandi nágrannliðsins Tottenham.

Lilja Alfreðsdóttir.
Lilja Alfreðsdóttir. mbl.is/​Hari

Ólst nánast upp á Laugardalsvelli

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, steig næst í pontu en hún hitti Crouch fyrst á opnunarathöfn Vetrarólympíuleikanna í Pyeongchang í Suður-Kóreu í febrúar. Lilja sagðist nánast hafa alist upp á Laugardalsvelli þar sem faðir hennar var formaður Fram og að hún beri mikla virðingu fyrir íþróttum.

Hún sagði íþróttaáhuga íslenskra barna vera mikinn og nefndi að um 80% barna taki þátt í íþróttum. Einnig sagði hún starf íþróttafélaganna mjög fagmannlegt og að íslenskar ríkisstjórnir hafi í gegnum tíðina lagt mikið upp úr því að fjárfesta í íþróttum.

Í máli Lilju kom fram að þörf sé á bættri aðstöðu í Laugardalnum vegna þess að leikvangurinn er farinn að eldast og sagðist hún hafa undirritað reglugerð tengda íþróttaleikvöngum sem var unnin upp úr tillögum starfshóps á vegum ráðuneytisins.

Tracey Crouch, Lilja Alfreðsdóttir og Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Tracey Crouch, Lilja Alfreðsdóttir og Guðni Bergsson, formaður KSÍ. mbl.is/​Hari

Skynsemi og sjálfbærni 

Hvað fjármögnun á endurbættum Laugardalsvelli varðar sagði hún það pólitíska ákvörðun hvort ríkið tekur þátt í slíku og að nánast ómögulegt væri að setja ábyrgðina bara á sveitarfélögin. „Reykjavík er vitaskuld eigandinn en við skiljum að þegar búa þarf til þjóðarleikvang þarf samstarf að eiga sér stað,“ sagði ráðherra.

„Íþróttir eru Íslendingum mjög kærar. Við viljum gera hlutina mjög vel en við viljum líka vera skynsöm þannig að verkefnið sé sjálfbært, vel fjármagnað og nýtist vel til framtíðar. Við viljum gera þetta á ábyrgan en einnig metnaðarfullan hátt,“ sagði Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert