Vanvirðing gagnvart fortíðinni

Heiðursborgarar Reykjavíkur, Vigdís Finnbogadóttir, Friðrik Ólafsson og Þorgerður Ingólfsdóttir
Heiðursborgarar Reykjavíkur, Vigdís Finnbogadóttir, Friðrik Ólafsson og Þorgerður Ingólfsdóttir mbl.is/​Hari

Allir íslensku heiðursborgarar Reykjavíkur, Vigdís Finnbogadóttir, Þorgerður Ingólfsdóttir, Friðrik Ólafsson og Erró, telja það óverjandi að reist verði hótel í Víkurgarði á einum elsta kirkjugarði Reykjavíkur og helgistað í höfuðborginni. Þau skrifuðu undir áskorun um að hætt verði við byggingu hótels í Víkurgarði. Erró var ekki staddur á landinu þegar Friðrik, Vigdís og Þorgerður afhentu borgarstjóra og formanni borgarráðs áskorunina.

„Það byggir engin hótel á helgum reit. Svoleiðis gera menn ekki. Ég er ekki mikið fyrir að gangrýna en þetta er í fyrsta skipti sem ég tek þátt í að skora á hið opinbera frá því að því að ég hætti í forsetaembættinu,“ segir Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti í viðtali við Morgunblaðið um ástæðu þess að hún stígur nú fram og skorar á hið opinbera í þessu tilfelli Reykjavíkurborg í ljósi þess hve málefnið er brýnt.

Vigdís segir að ef Reykjavikurborg vanti byggingarpláss undir hótel geti borgin leitað á náðir nágrannasveitarfélaganna. Vigdís segir að það sé eins og enginn staður fái að vera í friði í Reykjavík og það hryggi bæði yngri og eldri Reykvíkinga. Það sé búið að eyðileggja hina dásamlegu vídd sem var í kringum stjórnarráðið og Arnarhól og sýnina bæði norður og suður Lækjargötuna. 

Vigdís Finnbogadóttir, Friðrik Ólafsson og Þorgerður Ingólfsdóttir í Víkurgarði eins …
Vigdís Finnbogadóttir, Friðrik Ólafsson og Þorgerður Ingólfsdóttir í Víkurgarði eins og hann lítur út í dag. mbl.is/​Hari

Inngrip í dýrmætar söguslóðir

Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslands í skák sem gegndi starfiskrifstofustjóra Alþingis í rúm 20 ár segir að hann hafi tekið ástfóstri viðumhverfi Alþingis og það sé sárt að horfa upp á það sem sé að gerast í Víkurgarði. Hann segir að Kirkjugarðurinn eigi fyrst og fremst að fá að halda sér í upphaflegri mynd og Það sé til háborinnar skammar hvernig búið sé að fara með hann.

„Allt þetta svæði milli Austurvallar og Aðalstrætis var í túnfæti býlisins sem fyrsti landnámsmaðurinn reisti sér undir brekkunni. Á þessu svæði eru dýrmætar söguslóðir og gróf inngrip af þessu tagi eiga ekki að eiga sér stað,“ segir Friðrik, sem hefur áður komið að mótmælum vegna fyrirhugaðra bygginga á Landssímareitnum þar sem heiðursborgararnir segja Víkurgarð liggja en forsvarsmenn Reykjavíkurborgar segja að þar séu bílastæði.

Friðrik segir að árið 1965 hafi verið komið í veg fyrir að bygging yrði reist á þessum sama stað. Það hafi verið Viðreisnarstjórn Bjarna Benediktssonar sem lagði bann við því að byggingin risi á þessum stað og það megi segja að það bann sé enn í gildi en borgaryfirvöld virðast lítið virða fyrri ákvarðanir.

Hluti af Víkurgarði árið 1912 eða 1913. Tekin í garði …
Hluti af Víkurgarði árið 1912 eða 1913. Tekin í garði Peter Oluf Christensen, apótekara og konu hans Önnu Henriette Ljósmynd/Lyfjafræðisafnið

Austurvöllur hjarta Reykjavíkur

Þorgerður Ingólfsdóttir, tónlistarkennari og kórstjóri, segist hafa orðið þess heiðurs aðnjótandi að vera valin heiðursborgari Reykjavíkur á þessu ári. Hún hafi ekki verið almennilega inni í umræðunni en fylgst með henni sem almennur borgari. Í haust hafi hún komið í samstarf við hina heiðursborgarana og njóti góðs af vinnu frú Vigdísar og Friðriks.

„Framganga borgarinnar hefur sært mig. Ég og mín kynslóð höfum alltaf litið á svæðið í kringum Austurvöll sem hjarta Reykjavíkur. Þarna erum við minnt á sjálfstæði okkar og við berum virðingu fyrir þessum reit í kringum Alþingishúsið, Dómkirkjuna og styttuna af Jóni Sigurðssyni sem passar upp á allt saman,“ segir Þorgerður. Hún segir að það sé með ólíkindum að troða þurfi enn einu hótelinu á helgasta stað Reykjavíkur. Það sé vanvirðing og segi heilmikið til um þá tíma sem þjóðin lifi á nú. 

Vigdís segir það hvergi þekkjast að ganga svona hart að gömlum borgarkjarna eins og gert sé í  Reykjavík og Friðrik veltir því upp hvort þar ráði sjónarmið Mammons. Þorgerður bendir á að í aðra röndina segjast Íslendingar vera söguþjóð og vitna til forferðanna en ef fram fari sem horfi muni mikil sögufölsun verða í gangi. 

Að sögn Friðriks gerði borgin heiðursmannasamkomulag árið 1996 þar sem ákveðið var að  götumynd Kirkjustrætis fengi að halda sér. Samkomulagið var gert í kjölfar þess að Alþingi hætti við að reisa mikla byggingu við Kirkjustræti fyrir starfsemi Alþingis. Þess í stað var  ákveðið að varðveita gömlu húsin sem þar standa og endurgera þau. Að sögn er Friðrik ekki kunnugt um að því samkomulagi hafi verið rift. 

Vigdís Finnbogadóttir, Friðrik Ólafsson og Þorgerður Ingólfsdóttir í viðtalið við …
Vigdís Finnbogadóttir, Friðrik Ólafsson og Þorgerður Ingólfsdóttir í viðtalið við Morgunblaðið í Vigdísarhúsi. Erró var fjarri góðu gamni. mbl.is/​Hari

Nauðsynlegt að staldra við

Sóknarnefnd Dómkirkjunnar sem telur að Víkurgarður hafi ekki verið aflagður og heyri enn undir Dómkirkjuna hefur kært málið til úrskurðarnefndar umhverfis-og auðlindarmála að sögn Friðriks, sem hræðist að úrskurðurinn dragist á langinn með hættu á að hótel rísi á meðan úrskurðarnefndin fjalli um málið. 

Öll eru heiðursborgararnir sammála því að lítil framsýni stýri för þegar kemur að skipulagsmálum í kringum Austurvöll. Þeim sem byggðu Reykjavík sé sýnd lítil virðing. Þeim sem hvíla í Víkurgarði og fortíðinni sé sýnd mikil vanvirðing. Það sé nauðsynlegt að staldra við og hugsa málin til enda. Vigdís segir að ef ekki sé hlustað á minningar um það sem var, til þess að varðveita til framtíðar þá sé illa fyrir okkur komið. Engan bilbug er að finna á baráttu heiðursborgaranna sem segjast ekki hætta fyrr en búið sé að vinna úr málinu á þann hátt sem réttast sé. 

Meira um málið má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert