Konan aftur í gæsluvarðhald

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Kona, sem ásamt sambýlismanni sínum hefur verið ákærð fyrir gróft kynferðisofbeldi gegn dóttur hennar sem er stjúpdóttir mannsins, hefur verið úrskurðuð í gæsluvarðhald vegna málsins. Héraðssaksóknari fór fram á gæsluvarðhaldið og féllst Héraðsdómur Reykjaness á það. Úrskurðurinn var síðan staðfestur af Landsrétti fyrir helgi.

Konan var upphaflega hneppt í gæsluvarðhald en síðan sleppt þar sem brot mannsins voru talin alvarlegri. Fram kemur í frétt Ríkisútvarpsins að héraðssaksóknari teldi að ef konan hefði gerst sek um jafnalvarleg brot og henni væru gefin að sök myndi það valda hneykslun og særa réttarvitund almennings gengi hún laus.

Fólkið hefur viðurkennt að hafa beitt dóttur konunnar grófu ofbeldi og enn fremur að hafa gert það á meðan önnur dóttir þeirra horfði á. Ákæra var gefin út á hendur fólkinu 1. október. Rannsókn málsins hófst eftir að dóttir konunar mætti á lögreglustöð 10. júlí í sumar og lagði fram kæru á hendur manninum og móður sinni fyrir ofbeldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert