Gistináttagjald strax til sveitarfélaga

Aldís segir að tryggt verði að öll sveitarfélög njóti tekna …
Aldís segir að tryggt verði að öll sveitarfélög njóti tekna vegna gistináttagjalds. mbl.is/Kristinn Magnússon

Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga telur nauðsynlegt að slíta umræðu um gistináttagjald frá umræðu um tekjustofna sveitarfélaga almennt og hvetur ríkisstjórnina til að gera þegar breytingar á fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi og færa tekjur vegna gistináttagjalds til sveitarfélaga strax á næsta ári.

Þetta kom fram í setningarávarpi Aldísar Hafsteinsdóttur, formanns stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, á fjármálaráðstefnu sambandsins í morgun. Hún sagði nauðsynlegt að sveitarfélögin fengju tækifæri til aukinnar tekjuöflunar og að sambandið hafi leitað eftir því við stjórnvöld að þau fái hlutdeild í umferðarsköttum, tryggingagjaldi, tekjuskatti fyrirtækja og fjármagnstekjuskatti. Þessum óskum sé ávallt neitað, en að áfangasigri hafi verið náð varðandi gistináttagjald.

Aldís Hafsteinsdóttir.
Aldís Hafsteinsdóttir. Ljósmynd/Lydur Gudmundsson

Aldís sagði nauðsynlegt að slíta umræðu um gistináttagjald frá almennri umræðu um tekjustofna. vegna þess hve langan tíma sú umræða muni taka, og hvatti ríkisstjórn til að færa tekjur vegna gjaldsins til sveitarfélaga strax á næsta ári.

„Við sveitarstjórnarmenn munum síðan móta reglur sem tryggja að þessar nýju tekjur renni annars vegar til sveitarfélaga sem hýsa ferðamennina og hins vegar í sameiginlegan sjóð til að standa straum af kostnaði allra sveitarfélaga við uppbyggingu ferðaþjónustu. Þannig munu öll sveitarfélög njóta þessara tekna að einhverju leyti.“

Regluverk um nýtingu auðlinda gallað

Aldís gerði rekstrarleyfissviptingu tveggja fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum einnig að umræðuefni, og sagði það erfiðleikum bundið að nýta auðlindir og tækifæri til sjálfbærrar matvælaframleiðslu og orkuframleiðslu vegna gallaðs regluverks. „Í nýrri og metnaðarfullri byggðaáætlun er meginmarkmiðið að jafna búsetuskilyrði íbúa óháð staðsetningu. Það gerum við ekki með því að koma nýjum og vaxandi atvinnurekstri í óvissuástand.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert