Dæmigert haustveður með gusu af hlýju lofti

Kort/Veðurstofa Íslands

Spáð er austanhvassviðri um allt land með morgninum og jafnvel stormi undir Eyjafjöllum síðdegis. Með rokinu fylgir nokkur rigning og segir veðurfræðingur þetta vera dæmigert haustveður og því fylgi gusa af hlýju lofti. 

„Gengur í austanhvassviðri um allt land með morgninum, jafnvel að það slái í storm undir Eyjafjöllum síðdegis, og því þörf á aðgæslu ef ferðast er þar um. Með þessu fylgir nokkur rigning, einkum SA-lands. 

Þetta er því dæmigert haustveður, hvass vindur og rigning, en engar viðvaranir eru í gildi þegar þetta er ritað í morgunsárið. Með þessum skilum fylgir gusa af hlýju lofti og upp úr hádegi er útlit fyrir 8 til 13 stiga hita um landið S-vert.

Í kvöld dregur úr bæði vindi og úrkomu, en áfram verður hellirigning SA-til fram á nótt.
Á morgun er útlit fyrir mun hægari vind, úrkomulítið veður og líklega léttir til fyrir norðan. Það bætir síðan í vind og úrkomu A-lands annað kvöld,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Austan 13-20 m/s og rigning með morgninum, en slydda eða snjókoma til fjalla fram að hádegi. Lægir um allt land í kvöld og dregur víða úr úrkomu, en áfram rigning SA-til. Hiti 0 til 7 stig, en 8 til 13 stig S-lands eftir hádegi.

Austan 5-13 m/s á morgun, skýjað og úrkomulítið, en hægari vindur N-lands og léttir til. Norðaustlægari annað kvöld með rigningu um landið austanvert, 10-15 m/s með SA-ströndinni. Hiti 3 til 8 stig.

Á föstudag:

Austan 5-10 m/s, skýjað og úrkomulítið í fyrstu, en hægari vindur og bjart norðan til. Gengur í norðan 10-18 undir kvöld með rigningu um landið austanvert. Hiti 3 til 10 stig. 

Á laugardag:
Norðan og norðvestan 8-13 m/s á N-verðu landinu með rigningu, en slyddu til fjalla. Vestlægari sunnan til, skýjað og dálítil væta á köflum. Hiti 1 til 8 stig, hlýjast SA-til, en svalast á Vestfjörðum. 

Á sunnudag og mánudag:
Hæg suðlæg átt og skýjað með köflum, en stöku skúrir um sunnanvert landið. Hiti 0 til 7 stig. 

Á þriðjudag:
Snýst í austan- og norðaustanátt með rigningu eða slyddu A-lands, annars þurrt. Hiti 0 til 5 stig að deginum. 

Á miðvikudag:
Útlit fyrir norðlæga átt og kólnandi veður með éljum, en úrkomulítið SV-til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert