Andlát: Bjarni Sighvatsson útgerðarmaður

Bjarni Sighvatsson.
Bjarni Sighvatsson.

Bjarni Sighvatsson, fyrrverandi skipstjóri og útgerðarmaður, lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 9. október, 85 ára gamall.

Bjarni fæddist 2. desember 1932 í Vestmannaeyjum og var sonur Sighvatar Bjarnasonar, skipstjóra og framkvæmdastjóra, og Guðmundu Torfadóttur húsfreyju. Hann ólst upp í Ási í Vestmannaeyjum og var einn af ellefu systkinum. Bjarni byrjaði til sjós 14 ára og var sjómaður um árabil. Hann starfaði sem háseti, kokkur, stýrimaður og skipstjóri. Bjarni fór í Stýrimannaskólann í Reykjavík og lauk þaðan skipstjórnarnámi árið 1954.

Hann stofnaði og rak fiskverkunina Fjölni í félagi við aðra. Auk þess gerði hann út Hamraberg VE, Kristbjörgu VE og Sigurfara VE í samvinnu við fleiri. Bjarni var stjórnarformaður Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum hf. 1986-1994 að hann seldi hlut sinn og gerðist tómstundabóndi í Þorlaugargerði með hesta og kindur.

Bjarni var ötull stuðningsmaður Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum og stóð fyrir fjársöfnunum til tækjakaupa og keypti einnig tæki og gaf spítalanum.

Bjarni kvæntist Dóru Guðlaugsdóttur (f. 1934, d. 2007) hinn 23. maí 1953. Þau eignuðust fimm börn sem lifa föður sinn, Sigurlaugu, Guðmundu Áslaugu, Sighvat, Ingibjörgu Rannveigu og Hinrik Örn.

Útför Bjarna fer fram frá Landakirkju 20. október klukkan 13.00.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert