Brotið gegn innkaupareglum

Bragginn í Nauthólsvík. Borgarlögmaður telur verkið ekki hafa verið útboðsskylt.
Bragginn í Nauthólsvík. Borgarlögmaður telur verkið ekki hafa verið útboðsskylt. mbl.is/Árni Sæberg

Brotið var gegn innkaupareglum Reykjavíkurborgar við endurgerð braggans við Nauthólsveg 100. Þetta er mat borgarlögmanns, sem segir skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hins vegar ekki hafa brotið lög með gjörningum sínum.

Borgarlögmaður lagði á fundi innkauparáðs í dag fram álit sitt um fylgni við innkaupareglur við gerð samninga um braggann, sem er birt á vef Reykjavíkurborgar

Segir í áliti borgarlögmanns að tafir við framlagningu álitsins stafi af því „að upplýsingar frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar lágu ekki fyrir fyrr en 15. október sl.“ Ítrekað frá því í júní 2017 hafi hins vegar verið óskað eftir nánari úrvinnslu gagna, en það hafi ekki verið fyrr en í þessum mánuði sem „embættinu bárust nægilegar upplýsingar til að leggja mat“ á málið. Borgarlögmaður hafi áður upplýst innkauparáð um tafir á afhendingu upplýsinga og gagna á fundum ráðsins, en að ráðið hafi ekki bókað um þær sérstaklega á fundum sínum. 

Munnlegt samkomulag í stað skriflegra samninga

Gögnin sýni fram á að þeir samningar sem gerðir voru hafi ekki verið skriflegir heldur hafi verið um að ræða munnlegt samkomulag um að verkið skyldi unnið. Aðeins í einu tilfelli hafi verið til gögn sem sýndu samanburðartilboð, en að öðru leyti hafi ekki verið til staðar gögn sem sýndu fram á að leitað hefði verið hagkvæmustu tilboða. „Af þessum upplýsingum leiðir að engir skriflegir verksamningar liggi til grundvallar framkvæmdinni eða formlegt innkaupaferli heldur hefur samningum verið komið á með tilboðum og munnlegum hætti,“ segir í álitinu.

Það er þó niðurstaða borgarlögmanns að verkefnið hafi ekki verið útboðsskylt samkvæmt þágildandi lögum um opinber innkaup, þar sem samkvæmt þeirri kostnaðaráætlun sem verkfræðistofan Efla hafði unnið fyrir borgina var kostnaður við verkið á bilinu 146-158 milljónir króna. Það sé því ekki um brot á þeirri löggjöf að ræða.

Skylt að afla fyrirframsamþykkis innkauparáðs

Samkvæmt þeim innkaupareglum sem í gildi voru, sé hins vegar skylt að viðhafa innkaupaferli er áætluð samningsfjárhæð verklegra framkvæmda nemur hærri fjárhæð en 28 milljónum.

Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar hafi bent á að ekki hafi verið hægt að bjóða verkefnið út þar sem ekki lægi ljóst fyrir hvað ætti að varðveita og hvað ætti að endurgera. Í því samhengi þurfi að skoða hvort að heimilt hafi verið að undanþiggja verkefnið formlegum innkaupaferlum samkvæmt innkaupareglum borgarinnar, en slíkt megi m.a. gera við varðveislu sögulegra bygginga. Enga sundurliðun sé hins vegar að finna í göngunum á því hvaða verk- og kostnaðarþættir slík undanþága geti átt við og „telur borgarlögmaður því ekki unnt að fullyrða að hún eigi við um hluta þjónustu hönnuða eða mögulega annarra sem að verkinu komu.“ 

Því sé rétt að benda á skylt sé að afla fyrirframsamþykkis innkauparáðs fyrir beitingu undanþáguheimilda. Engin gögn hafi hins vegar komið fram sem sýni að skilyrði undanþágu hafi verið uppfyllt og að einungis eitt fyrirtæki hafi komið til greina sem verktaki að einstökum verkþáttum. „Því hefur ekki verið sýnt fram á að heimilt hafi verið að semja beint við aðila um einstaka verkþætti á grundvelli einstakra tæknilegrar þekkingar þeirra,“ segir í álitinu.

Ástæða sé því til að benda á að samkvæmt innkaupareglum borgarinnar er óheimilt að skipta upp samningum í því skyni að komast hjá útboðsskyldu. Ekki sé unnt að fullyrða að slíkt hafi verið gert af ásettu ráði, enda liggi fyrir skýringar þess efnis að verkefnið sé þess eðlis að erfitt sé að sjá umfang þess fyrir. „Ljóst er þó að í innkaupareglum Reykjavíkurborgar er ekki að finna heimild til þess að leggja slíkar forsendur til grundvallar undanþágu frá útboðsskyldu."

Segir í frétt á vef Reykjavíkurborgar að innkauparáð telji álitið nýtast vel við endurskoðun innkaupareglna sem nú stendur yfir.

mbl.is

Bloggað um fréttina