Þrír menn játa íkveikju í Laugalækjarskóla

Kveikt var í Laugalækjarskóla 2. október.
Kveikt var í Laugalækjarskóla 2. október. mbl.is/Hallur Már

Þrír karlmenn hafa játað að hafa kveikt í Laugalækjarskóla í byrjun mánaðarins. Lögreglan handtók mennina, sem eru á þrítugsaldri, eftir ábendingu sem henni barst fyrir um viku.

Samkvæmt upplýsingum frá Jóhanni Karl Þórissyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, voru mennirnir með grillolíu og notuðu hana til að kveikja í laufblöðum og fleiru lauslegu við vegg skólans til þess að hlýja sér. Það fór hins vegar úr böndunum með þeim afleiðingum að eldurinn læsti sig í klæðningu á vegg skólabyggingarinnar. Grunur leikur á að mennirnir hafi verið í annarlegu ástandi.

Lögregla hefur lokið rannsókn á málinu og fer það nú til ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem ákveður hvort ákæra verður gefin út á hendur mönnunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert