Ólafur dregur framboð til baka

Ólafur Arnarson var formaður Neytendasamtakanna 2016-2017.
Ólafur Arnarson var formaður Neytendasamtakanna 2016-2017. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Arnarson, fyrrverandi formaður Neytendasamtakanna, hefur dregið framboð sitt til stjórnar Neytendasamtakanna til baka. Ólafur starfaði sem formaður samtakanna 2016-2017 en sagði af sér í júlí 2017 eftir harðar deilur við stjórn samtakanna. 

Í yfirlýsingu sem Ólafur hefur sent frá sér segir hann að hann hafði ekki hugsað sér að hafa afskipti af starfi Neytendasamtakanna að nýju en eftir að Jakob S. Jónsson ákvað að gefa kost á sér í embætti formanns ákvað Ólafur að bjóða sig fram til stjórnar með það að markmiði að starfa með Jakob og nýrri stjórn að endurreisn samtakanna. Þær forsendur hafi hins vegar breyst þar sem Jakob hefur dregið framboð sitt til baka af persónulegum ástæðum.

Ólafur er gagnrýninn á starf Neytendasamtakanna og segir í yfirlýsingu sinni að frá afsögn sinni í júlí 2017 hafi samtökin verið því sem næst ósýnileg og enginn talsmaður neytenda verið sjáanlegur. „Sem er mjög miður því Neytendasamtökin verða að að vera afl í þágu neytenda, ekki bara einhver kontór, sem aðstoðar einstaka félagsmenn með kvartanir gagnvart einstökum fyrirtækjum,“ segir Ólafur.

Ólafur segir einnig að að áður en hann ákvað að draga framboð sitt til stjórnar höfðu runnið á hann tvær grímur. „Komandi þing Neytendasamtakanna stefnir í að verða fullkominn farsi og ber stjórn samtakanna þar alla ábyrgð,“ segir hann.

Segir hann fyrirhugaða kosningu í trúnaðarstöður innan Neytendasamtakanna vera í trássi við gildandi lög samtakanna og þar með verði umboð þeirra, sem kosnir verða, í besta falli vafasamt.

Rafrænar kosningar ekki í samræmi við lög

Þing samtakanna fer fram síðustu helgina í október og verða kosningar til formanns og stjórnar rafrænar en Ólafur fullyrðir að í lögum samtakanna sé engin heimild til að hafa kosningar rafrænar.

„Stjórnin hefur hins vegar sjálf ákveðið að svo verði, sem er í meira lagi undarlegt því samkvæmt lögum samtakanna hefur stjórn þeirra enga aðkomu að framkvæmd kosninga. Lögin fela sérstakri kjörstjórn, sem kosin er á þingi samtakanna, alla framkvæmd kosninga.Það er vitanlega ástæða fyrir því að sérstakri kjörstjórn er falin umsjón kosninga. Það er eðlilegt að þeir sem koma að framkvæmd kosninga séu ekki sjálfir í framboði. Þrír núverandi stjórnarmenn, eru í framboði til stjórnar,“ segir Ólafur.

Að lokum segist Ólafar vona að félagsmenn í Neytendasamtökunum kjósi öflugt og heiðarlegt fólk til forystu í samtökunum. „Ekki er vanþörf á eftirþá niðurlægingu, sem núverandi stjórn hefur leitt yfir samtökin. Ég vona að ólögleg framkvæmd kosninga leiði ekki til þess að samtökin verði áfram stjórnlaus, ósýnileg og neytendum með öllu gagnslaus.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert