Sea Shepherd stofna Íslandsdeild

Markmið Íslandsdeildar Sea Shephard er að hvalstöðinni í Hvalfirði verði …
Markmið Íslandsdeildar Sea Shephard er að hvalstöðinni í Hvalfirði verði lokað. Ljósmynd/Hard To Port

Sérstök Íslandsdeild hefur verið stofnuð innan umhverfisverndarsamtakanna Sea Shepherd. Stofnfundurinn var haldinn á skemmtistaðnum Gauknum og var Alex Cornelissen, forstjóri samtakanna á heimsvísu, viðstaddur fundinn.

Á Facebook-síðu samtakanna segir að deildin hafi verið stofnuð af Íslendingum og útlendingum sem munu vinna saman til að tryggja að vistkerfi sjávar lifi af fyrir komandi kynslóðir. Stefnt er að því að skrá félagið sem góðgerðarsamtök í sjávarvernd „sem stefna að því að stöðva eyðileggingu sjávarbúsvæða, dráp á villtu lífi í kringum strendur Íslands sem og um heimshöfin öll til að vernda vistkerfi og dýrategundir.“

Ítarlega var fjallað um mótmæli Sea Shepherd gegn hvalveiðum við Íslandsstrendur í fréttaskýringaþættinum Nightline á ABC í gærkvöldi. Þar greina samtökin meðal annars frá því að markmið þeirra sé að hvalstöðinni í Hvalfirði verði lokað. Í þættinum er einnig rætt við Kristján Loftsson, forstjóra Hvals ehf., þar sem hann segir að fólkið innan samtakanna sé grimmt. „En það má gera það sem það vill.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert