Engin skotfæri leyfð á æfingunni

NATO-æfing í Keflavík.
NATO-æfing í Keflavík. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan á Suðurlandi segir að í dag og á morgun muni hópar bandarískra hermanna vera með gönguæfingar í Þjórsárdal. Hermenn þessir verða klæddir í hermannafatnað og bera vopn, óhlaðin, en engin skotfæri eru leyfð á þessari æfingu. 

Í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar kemur fram að tilgangurinn með æfingunni er að kanna getu þeirra til að takast á við vont veður með þungar byrðar á bakinu.

„Ekki hafa verið settar upp lokanir vegna þessa og ekki gert ráð fyrir því að þetta trufli umferð að neinu leyti eða valdi neinu raski. Lögreglan á Suðurlandi, ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra, verður með gæslu á svæðinu og þessu fólki til aðstoðar,“ segir í færslunni.

Um er að ræða svokallaðar vetraræfingar og er gert ráð fyrir að um 400 manna lið landgönguliða æfi þar. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu munu hermennirnir ganga um 10 kílómetra vegalengd með fullan herbúnað. Hernaðarandstæðingar hafa boðað komu sína á svæðið á laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert