„Markmiðið að engin kveiki í geitinni“

Jólageitin er komin á sinn stað við Kauptún í Garðabæ. …
Jólageitin er komin á sinn stað við Kauptún í Garðabæ. Fylgst er grannt með henni, en kveikt hefur verið í henni í tvíganga og eitt skipti kviknaði í henni vegna lýsingarbúnaðs. Haraldur Jónasson/Hari

„Aðallega þykir okkur vænt um jólageitina og þetta er náttúrulega dýr búnaður, jólaseríur og fleira,“ segir Gunnlaugur Fannar Jónsson, öryggisstjóri IKEA, í við fyrirspurn mbl.is um nauðsyn sólarhringsvöktunar við hina margfrægu jólageit IKEA við Kauptún í Garðabæ. „Þetta lætur okkur vita að jólin eru komin í IKEA,“ bætir hann við.

Spurður hvort það sé fyrir alla að vakta slíka forláta geit svarar Gunnlaugur því neitandi. „Kannski ekki fyrir alla, það er mikið að sitja í bíl og fylgjast með geitinni yfir nóttina. Þetta er bara hluti af gæslunni hjá IKEA, enda með menn á vakt allan sólarhringinn.“

„Helsta markmiðið er að engin kveiki í geitinni,“ segir hann, en kveikt hefur verið tvisvar í IKEA-geitinni og einu sinni hefur kviknað í út frá ljósaskreytingum.

Um miðjan nóvember 2016 var kveikt í jólageitinni við IKEA. Varðstjóri sagði þá að slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hafði verið tilkynnt um íkveikjuna um fjögurleytið að nóttu og brann geitin nánast til kaldra kola. Þá hafði verið reynt að kveikja í geitinni vikunni á undan.

Aðfararnótt fullveldisdagsins, 1. desember, 2012 var einnig kveikt í geitinni og var hin sex metra háa geit gjörónýt.

Vonir standa til að jólageitin fái að standa í friði að þessu sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina