Tillagan væri gríðarlegt bakslag

Samtökin 78, Trans Ísland, Intersex Ísland og Hinsegin dagar skora …
Samtökin 78, Trans Ísland, Intersex Ísland og Hinsegin dagar skora á íslensk stjórnvöld að fordæma fyrirætlanir Bandaríkjastjórnar. Myndin er af ungliðahreyfingum stjórnmálaflokka, sem tóku þátt í Gleðigöngu Hinsegin daga í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Enn eina ferðina vegur voldugt þjóðríki að réttindum hinsegin fólks um leið og það hreykir sér af vernd frelsis og mannréttinda,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu Samtakanna 78, Trans Ísland, Intersex Ísland og Hinsegin daga vegna þeirra nýlegu frétta sem borist hafa frá Bandaríkjunum um að heilbrigðisráðuneyti ríkisins hyggist endurskilgreina hugtakið kyn í bandarískum lögum.

Eins og fjallað hefur verið um á mbl.is felst endurskilgreiningin í því að Bandaríkjamenn geti einungis skilgreint sig sem karl eða konu í samræmi við líffræðilegt kyn þeirra við fæðingu. Þar með yrði lokað fyrir að fólk geti skilgreint sig sem trans eða intersex í samskiptum sínum við hið opinbera.

Íslensku samtökin hafa, auk yfirlýsingarinnar, sent áskoranir bæði til ríkisstjórnar Íslands og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi vegna málsins. Skorað er á ríkisstjórnina að „fordæma fyrirhugaðar aðgerðir Bandaríkjamanna harðlega og beita sér af festu fyrir réttindum hinsegin fólks“ og til sendiráðsins barst áskorun til bandarískra stjórnvalda um að „falla tafarlaust frá áformum sínum um að svipta trans og intersex fólk lagalegum réttindum og festa þess í stað vernd gegn mismunun fyrir þessa hópa enn frekar í sessi.“

Tilraun til að afmá tilvist intersex fólks

Í yfirlýsingu samtakanna segir að fyrirætlanir Bandaríkjastjórnar endurspegli bæði „gapandi skort á vísinda- og söguþekkingu og djúpstæða fyrirlitningu í garð trans og intersex fólks.“

„Sú hugmynd að skipta megi mannkyninu í tvo fullkomlega einsleita líffræðilega flokka, karla og konur, er ofureinföldun sem kannski hentar ágætlega til líffræðikennslu í grunnskólum. Hún fangar þó engan veginn hinn margslungna veruleika líffræðilegs kyns. Í krafti þessarar einföldunar hefur intersex fólk verið afmáð af spjöldum sögunnar og sætt grófum mannréttindabrotum, oft af hálfu opinberra stofnana, sem eru fyrst nú að koma í ljós. Tillaga heilbrigðisráðuneytis Bandaríkjanna væri gríðarlegt bakslag í mannréttindabaráttu intersex fólks og enn ein tilraun yfirvalda til að afmá tilvist þeirra.

Eins hefur ekkert samfélag verið til án fjölbreytileika í kynvitund. Sama hvert er litið í sögunni hafa manneskjur samsamað sig öðru kyni en því sem þeim var úthlutað í frumbernsku. Fólk með fjölbreytta kynvitund hefur alla tíð auðgað mannleg samfélög og menningu. Það er á ábyrgð hvers samfélags fyrir sig að ákveða hvort það bregst við fjölbreytileika með ofbeldi og útskúfun, eða með inngildingu, sátt og samlyndi,“ segir meðal annars í yfirlýsingu samtakanna, sem finna má í heild sinni hér að neðan.

Rætt á Alþingi í dag

Þetta mál var rætt á Alþingi í dag, en þá spurði Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra að því hvort hann hefði ekki áhyggjur af þessari þróun mála vestanhafs.

Guðlaugur Þór sagði að um afturför væri að ræða og að í tvíhliða samráði við samstarfsríki hefðu Íslendingar ávallt tekið upp stöðu mannréttindamála og að engin breyting verði þar á, hvorki gagnvart Bandaríkjamönnum né öðrum.

mbl.is