Afhentu Landsbjörg rúmar 15 milljónir

Þetta er í annað sinn sem áheit WOW Cyclothon renna …
Þetta er í annað sinn sem áheit WOW Cyclothon renna til Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Í gær tók Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, við ávísun upp á 15.444.401 krónu frá aðstandendum hjólreiðakeppninnar WOW Cyclothon. Upphæðin er afrakstur áheitasöfnunar WOW Cyclothon þar sem keppendur og aðstandendur safna fyrir góðu málefni. Skúli Mogensen og Magnús Ragnarsson, stofnendur keppninnar, afhentu ávísunina í húsnæði bjögunarsveitarinnar Ársæls að viðstöddum liðsmönnum hennar.

Jón Svanberg segir það mjög ánægjulegt að fá að taka við áheitum hjólreiðakeppninnar annað árið í röð. „Við lítum á það sem viðurkenningu á því óeigingjarna starfi sem sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar sinna út um allt land og erum mjög þakklát. Starf sjálfboðaliðanna er mikilvægt en það mætti sín ekki eins mikils ef ekki kæmi til öflugur stuðningur almennings og fyrirtækja enda eru slysavarna- og björgunarstörf sameiginlegt verkefni okkar allra”.

Þetta er í annað sinn sem áheit WOW Cyclothon renna til Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Í fyrra söfnuðust yfir 20 milljónir króna og hefur WOW Cyclothon því afhent Slysavarnafélaginu 36.099.611 á tveimur árum. Frá upphafi hafa aðstandendur WOW Cyclothon safnað yfir 90 milljónum króna fyrir hin ýmsu málefni.

WOW Cyclothon er ekki eingöngu hjólreiðakeppni því samkeppnin á milli liða um að safna sem flestum áheitum er einnig mikil. Sigurvegari áheitakeppninnar í ár var liðið R&R1 sem safnaði 3.497.788 krónum. Í öðru sæti var ÞG verk með 3.152.000 krónur og í þriðja var R&R2 með 1.1.70.900. Sigurliðið R&R1 fékk í verðlaun gjafabréf frá WOW air en þau ákváðu að láta verðlaunin renna til samtakanna Hjólakrafts, samtaka með það að leiðarljósi að hjálpa börnum og unglingum sem glíma við lífsstílssjúkdóma eða aðra erfiðleika; líkamlega eða andlega. Undanfarin ár hafa þau sett sterkan svip á WOW Cyclothon en í ár hjóluðu 150 manns í keppninni undir merkjum samtakanna í sérstökum Hjólakraftsflokki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert