Cyclothonið undir merkjum Símans á nýju ári

Orri Hauksson, forstjóri Símans, afhendir forstöðumanni Reykjadals, Margréti Völu Marteinsdóttur, …
Orri Hauksson, forstjóri Símans, afhendir forstöðumanni Reykjadals, Margréti Völu Marteinsdóttur, söfnunarféð í höfuðstöðvum Símans. Ljósmynd/Síminn

Hjólreiðakeppnin sem undanfarin ár hefur gengið undir nafninu WOW cyclothon mun halda áfram á næsta ári undir nafninu Síminn cyclothon. Fer keppnin fram dagana 23. til 26. júní, en undanfarin ár hefur verið um stærstu hjólreiðakeppni ársins að ræða, þar sem um þúsund manns hafa tekið þátt í að hjóla hringinn í kringum landið.

Í tilkynningu frá Símanum kemur fram að áheit sem söfnuðust í keppninni í ár hafi jafnframt verið afhent Reykjadal, en þar rekur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra sumarbúðir. Var um að ræða 7,2 milljónir.

Haft er eftir Orra Haukssyni, forstjóra Símans, að fyrirtækið sé afskaplega stolt að setja nafn sitt við keppnina og að tengjast henni sterkum böndum.

Magnús Ragn­ars­son, eig­andi keppn­inn­ar, er jafnframt framkvæmdastjóri afþreyingarmiðla og sölu Símans, en hann stofnaði keppnina á sínum tíma ásamt Skúla Mogensen, stofnanda og fyrrverandi forstjóra WOW air. Var keppnin undir nafni flugfélagsins frá því að hún fór af stað og þangað til á þessu ári, en þrátt fyrir gjaldþrot WOW air, ákváðu forsvarsmenn keppninnar að halda sig við WOW-nafnið þar sem of stuttur fyrirvari var á að finna nýjan styrktaraðila og breyta merkingum keppninnar.

Samkvæmt skráningu hjá Isnic keypti WOW sports, eigandi keppninnar, lénið siminncyclothon.is 20. nóvember á þessu ári. 

mbl.is