Skráningartímabil Símans Cyclothon senn á enda

WOW Cyclothon
WOW Cyclothon mbl.is/Kristinn Magnússon

Skráningu í Cyclothon-hjólakeppni Símans lýkur eftir viku en keppnin snýr aftur eftir árs fjarveru. Verður þetta í fyrsta sinn sem hjólakeppnin verður haldin undir merkjum Símans en flugfélagið WOW air var aðalstyrktaraðili hennar fram að gjaldþroti þess. Keppt verður bæði í einstaklings- og liðakeppni en í ár mega einungis átta manna boðsveitir taka þátt í liðakeppninni.

Svipuð skráning er í keppnina í ár og í fyrri keppnir en að sögn Ragnars Más Vilhjálmssonar, skipuleggjanda Símans Cyclothon, er nokkur breyting á þátttakendahópnum í ár. „Það er minna um erlenda þátttakendur, kannski vegna þess að á árunum á undan var þetta tengt við WOW og þá er ákveðið átak í gangi að fá ferðamenn til landsins sem nota þá WOW til að koma. Sú áhersla hefur ekki verið nein í ár en við vitum samt að það kemur allavega eitt lið frá Texas. Það eru fleiri lið erlendis sem hafa ýmist skráð sig eða tilkynnt komu sína, en ekki í sama mæli og hefur verið.“

Hjólakeppnin hefur styrkt nokkur málefni síðasta áratug en í ár verður hjólað til styrktar umhverfissamtökunum Landvernd, samkvæmt tilkynningu Símans Cyclothon. Landvernd leggur áherslu á loftslagsmál og verndun íslenskrar náttúru og telur Síminn Cyclothon gildi samtakanna eiga vel við hjólreiðar sem vistvænan ferðamáta við söfnun áheita til samtakanna.

Þetta er í níunda sinn sem hjólakeppnin fer fram og verður hún haldin frá 22. til 25. júní. Keppendur hjóla þá samtals 1.358 kílómetra meðfram hringveginum. Keppninni var aflýst í marsmánuði í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins en sérstakar ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að stemma stigu við smithættu meðal keppenda, þar á meðal fyrrnefndar breytingar á fjölda liðsmanna og takmörkun bílafjölda liðanna við einungis einn bíl.

Einnig hefur Síminn Cyclothon sett saman svokallað plan B fyrir rássvæðið til þess að tryggja að keppnishóparnir blandist ekki saman. Ragnar Már á þó ekki von á að sú áætlun verði virkjuð. „Við erum hins vegar með plön sem við erum búin að bera undir Almannavarnir og líta út í fullu samræmi við það sem takmarkanir gætu krafist.“

Hlekk á skráningareyðublað keppninnar má finna hér.

mbl.is