Hagstæðustu lánin ekki fyrir efnaminni

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Birgir Ísleifur Gunnarsson

Þrátt fyrir að bestu lánakjörin séu í boði hjá lífeyrisjóðunum hvað íbúðarlán varðar, veldur lægra veðsetningarhlutfall hjá lífeyrissjóðunum því að „lífeyrissjóðslán eru í mörgum tilfellum ekki fullnægjandi fjármögnunarkostur fyrir fólk með lítið eigið fé,“ segir í skýrslu Íbúðalánasjóðs og velferðarráðuneytisins um stöðu og þróun húsnæðismála, sem kynnt var á húsnæðisþingi í dag.

Jafnframt segir að „þeir sem þurfa hærri lán en bjóðast hjá lífeyrissjóðunum þurfa ýmist að taka dýrari viðbótarlán annars staðar eða beina viðskiptum sínum alfarið annað.“ 

Betri kjör hjá lífeyrissjóðunum eru rakin til þess að sjóðirnir eru undanskildir sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki „ólíkt öðrum lánveitendum á markaði,“ segir í skýrslunni.

Augljós mismunun

„Þessi augljósa mismunun í lífeyriskerfinu okkar þar sem aðgangur þeirra efnameiri og eignameiri er tryggður að hagstæðustu kjörunum. Þeir sem eru efnaminni það eru þeir sem hafa ekki greiðslugetu til annars en að taka versta samningin,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við blaðamann mbl.is.

Hann segir nánast ómögulegt fyrir lántakendur að fá viðbótarlán í bankakerfinu á öðrum veðrétti á eftir lífeyrissjóðslánum, þar sem bankarnir lána ekki á öðrum veðrétti fasteignalána nema að fá fyrsta veðrétt líka.

Einhverjar undantekningar eru á þessu, en þau viðbótarlán sem eru í boði eru á afar slæmum kjörum, að mati Ragnars. „Þetta er sérstaklega slæmt fyrir unga fólkið okkar og þá sem eru nýir á fasteignamarkaði og eru lífeyrissjóðslánin ekki aðgengileg öllum sjóðsfélögum,“ bætir hann við.

Lífeyrissjóðirnir bjóða hagstæðustu lánin en þau lánakjör eru ekki aðgengileg …
Lífeyrissjóðirnir bjóða hagstæðustu lánin en þau lánakjör eru ekki aðgengileg þeim sem þurfa á hagstæðari kjörum að halda. mbl.is/Golli

Ekki sjálfsagt að hækka veðsetningarhlutfall

Spurður hvort VR mun beita sér fyrir því að veðsetningarhlutfall lífeyrissjóðanna verði hækkað, svarar Ragnar „bæði já og nei.“ Að uppfylltum skilyrðum kæmi síðan til greina að auka aðgengi að hagstæðustu lánunum og binda enda á mismunun á lánamarkaði að sögn hans.

Ragnar útskýrir að ef liðkað er fyrir aukinni lántöku án fjölgunar íbúða mun aðeins vera ýtt undir aukningu fasteignaverðs sem mun ekki skila árangri í húsnæðismálum og þess vegna þarf að stuðla að því að fleiri íbúðir verði á markaði ásamt því að gerð verður uppstokkun á íbúðalánakerfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert