Þakið ekki gallað þrátt fyrir leka

Úr fimleikahúsinu í Garðabæ. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Úr fimleikahúsinu í Garðabæ. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Eggert

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir að enginn galli sé á þaki fimleikahúss bæjarins í Ásgarði þrátt fyrir að kvartað hafi verið yfir leka inni í salnum.

Aðeins tíu ár eru síðan húsið var reist.

Kvartað er yfir ástandinu í bréfi sem framkvæmdastjóri Ungmennafélags Stjörnunnar sendi bæjarráði og sagt að nauðsynlegt hafi verið að hafa fötur og handklæði úti um allan sal þegar rigning er úti.

Gunnar Einarsson.
Gunnar Einarsson. mbl.is/RAX

Krummi krunkaði í dúkinn

Gunnar segir að bréfið hafi verið skrifað eftir að gert hafi verið við þakið. Varðandi lekann segir hann að unnin hafi verið skemmdarverk á þakinu síðasta vetur, skorið hafi verið á dúk og lekið hafi í framhaldinu. Smá tíma hafi tekið að átta sig á lekanum. Búið er að gera við það. Eftir það fór krummi að kroppa í dúkinn og olli hann einhverjum skemmdum.  

Þar fyrir utan eru reyklúgur á þakinu sem frjósa stundum ef snjór safnast nálægt þeim. „Við erum að vinna í því að klára það. Þetta er nú ekkert stórmál,“ segir hann og talar um lítið viðhaldsmál. „Þetta er í fínu standi.“

Ásgarður í Garðabæ.
Ásgarður í Garðabæ. mbl.is/Júlíus

Vísað til íþróttafulltrúa

Spurður út í ósk fimleikadeildar Stjörnunnar og Ungmennafélags Stjörnunnar um fjármagn til áhaldakaupa með hliðsjón af slysahættu og öryggisstöðlum segir Gunnar að bæði stofnanir, skólar og félög sæki um tæki og tól vegna gerðar fjárhagsáætlunar. Eftir það er þeim málum vísað til íþróttafulltrúa. Sérstök upphæð sé ákveðin fyrir tæki og búnað fyrir íþróttamiðstöðina og eftir það reyni menn að moða úr því eins vel og hægt er.

Hann kveðst ekki vita um kostnaðinn við að endurnýja tækjabúnaðinn í fimleikahúsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert