Of mikill tími fer í stjórnmál og dægurþras

Unnsteinn Manúel og Saga Garðasdóttir eru dagskrárgerðarfólk á nýrri útvarpsstöð, …
Unnsteinn Manúel og Saga Garðasdóttir eru dagskrárgerðarfólk á nýrri útvarpsstöð, útvarp 101 sem fer í loftið á morgun, þann fyrsta nóvember. Mbl.is/ Árni Sæberg

Útvarp 101 er ný útvarpsstöð sem fer í loftið nú á fimmtudaginn þann fyrsta nóvember klukkan ellefu. Útvarpstöðin samanstendur af vinum og kunningjum sem starfað hafa við tónlistarútgáfu, fjölmiðla, framleiðslu og aðra listsköpun síðastliðin ár. Útvarp 101 heldur úti útvarpsútsendingu dag og nótt ásamt því að miðla fréttunum og vönduðu dagskrárefni á netinu.

„Við höfum verið með stúdíóið okkar á Hverfisgötu í tvö ár og langaði að taka þetta skrefinu lengra. Okkur fannst vera gat á markaðnum fyrir þetta verkefni,“ segir Unnsteinn sem fannst vanta útvarpstöð fyrir ungt fólk með áherslu á tónlist, listir og aðra menningu. „Útvarpsstöð er höfn fyrir fólk þar sem er hægt að eiga samtal við aðra.“

Útvarpsstöðin verður í samstarfi við Sýn og dagskrárgerðarfólk á bak við hana eru meðal annars Unnsteinn Manuel Stefánsson, Logi Pedro Stefánsson, Saga Garðarsdóttir, Aron Már Ólafsson, Sigurbjartur Sturla Atlason, Jóhann Kristófer Stefánsson, Svanhildur Gréta Kristjánsdóttir og Birna María Másdóttir.

„Ég hafði samband við Stefán forstjóra Sýn sem áður var Vodafone á Twitter og hann tók bara mjög vel í þetta,“ segir Unnsteinn. Svo hófst samtal sem tók um það bil eitt og hálft ár en núna erum við að fara í loftið.“

Menning fær allt of lítið vægi í fjölmiðlum

Unnsteinn segir að það fari svo mikill tími í útvarpi og samfélagsmiðlum í stjórnmál og dægurþras  og að menning fái allt of lítið vægi. „Okkur langaði að færa þetta á stærra plan, koma menningu á framfæri og því sem ungt fólk er að gera. Og með menningu á ég ekki við endilega einhverri háfleygri hámenningu, þetta er poppkúltúrinn, við viljum bara fjalla um það sem fólk er að gera. Hvort sem það er tónlistarmaður að búa til rapp í bílskúrnum hjá sér eða menntaskólakrakkar að semja útvarpsleikrit.“

Hann segir því hafa verið fleygt fram að Útvarp 101 sé rapp stöð en það sé ekki raunin. „Það eru einhver okkar sem hafa samið rapptónlist en þetta er alls engin rappstöð.“ Spurður að því hvers konar tónlist verði spiluð á útvarpsstöðinni segir hann þau einblína á nýja tónlist, hvort sem það er popp, rapp, rokk eða annað. „Við viljum koma fólki á óvart. Algóritminn í Spotify kemur engum á óvart, þeir finna bara út hverskonar tónlist fólk hefur hlustað á hingað til og leiða hlustendann áfram á þeirri braut. Ég held að fólk vilji sérvalda tónlist og kynnast einhverju alveg nýju.“

Kalla eftir meiri tónlist eftir íslenskar konur

Hann bætir við að stefna útvarpsstöðvarinnar sé að spila jafnmikið af erlendri og íslenskri tónlist en að slíkt hlutfall muni sennilega ekki nást til að byrja með. „Til dæmis erum við að leggja mikla áherslu á að spila tónlist eftir konur, að hlutfall milli karla og kvenna sé fimmtíu- fimmtíu en þar sem þau hlutföll eru ójöfn þá verðum við til dæmis að spila meiri tónlist eftir erlendar tónlistarkonur eða bönd. Með þesssum hætti viljum við kalla eftir meiri tónlist eftir íslenskar konur. “

Útvarp 101 eru einnig að opna vefsíðu þar sem hægt verður að nálgast þætti og myndbandsefni. „Við verðum með myndbandsefni líka á YouTube, Instagram og Facebook,“ segir Unnsteinn sem bætir við að einhverjir muni kannski ekki einu sinni kveikja á útvarpsstöðinni en fylgjast með henni í staðinn í gegnum netið og samfélagsmiðla.

En hvers vegna heldur hann að útvarp lifi svona góðu lífi enn í dag? „Ég held að það sé vegna þess að samtal við hlustendur hefur áhrif á umræðuna. Við erum að ofurörva skilningarvitin allan liðlangan daginn með tölvum og snjallsímum og samfélagsmiðlum. Stundum vill maður bara setjast niður og hlusta á eitthvað.“

 Hægt er að hlusta á Útvarp 101 á FM 94.1 á Höfuðborgarsvæðinu og um allan heim á 101.live.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert