„Átti að taka þá í klikkaða ævintýraferð“

Neil og Si voru mjög sáttir með heimsóknina.
Neil og Si voru mjög sáttir með heimsóknina. Skjáskot/GCN

Á síðustu árum hafa malarhjólreiðar (e. gravel) sótt mikið í sig veðrið víða um heim og nú í síðasta mánuði komu hjólreiðamenn frá einum vinsælasta hjólamiðli heims, ef ekki þeim vinsælasta og tóku upp myndskeið þar sem þeir ferðast um Fjallabak. Eiga þeir vart orð til að lýsa íslenskri náttúru og undirlaginu sem þeir segja einstaklega gott fyrir bæði fjalla- og malarhjólreiðar.

Tvö myndbönd af ferðalagi þeirra voru birt í vikunni á Youtube og hafa þegar um 220 þúsund manns horft á þau og eru viðbrögðin öll á sömu leið. Það dást allir að þessum hjólastað.

Magne Kvam, einn eigandi og framkvæmdastjóri Icebike Adventures, var fenginn til að skipuleggja ferð þeirra Simon Richardson (Si) og Neil Donoghue. Eru þeir kynnar hjá Global cycling network (GCN) og Global moutain bike network (GMBN), en um er að ræða systurstöðvar sem eru með daglega þætti á Youtube um allt mögulegt tengt hjólreiðum.

Magne hefur rekið fyrirtækið hér á landi í áratug ásamt fjölskyldu sinni og segir að þau hafi reglulega tekið að sér verkefni sem þessi. Þetta sé þó klárlega einn af stærri miðlum sem fjalli um hjólreiðar í heiminum.

Frá ferðalagi þeirra Si og Neil. Náttúrunni eru gerð góð …
Frá ferðalagi þeirra Si og Neil. Náttúrunni eru gerð góð skil í myndbandinu. Skjáskot/GCN

„Ég átti að taka þá í klikkaða ævintýraferð, mikla áskorun og gera eitthvað erfitt,“ segir Magne. Upphaflega voru hugmyndirnar vel ævintýralegar, en Magne segir að þær hafi aðeins verið dempaðar þegar leið nær ferðinni. „Fyrsta hugmyndin var að henda þeim úr þyrlu og láta þá hjóla til baka,“ segir hann og hlær.

Að endingu var ákveðið að Magne myndi fylgja þeim á bíl, enda var myndatökumaður með í för sem þurfi að fylgja hjólurunum. Voru þeir keyrðir upp í nágrenni Hrafntinnuskers þar sem ferðin byrjaði í snjó og þoku. Á myndbandinu má sjá að Si og Neil eru á báðum áttum um ágæti ferðarinnar á þessum tímapunkti, en það breytist fljótt.

Glæsileg myndskeið af íslenskri náttúru fylgja sem gera umhverfinu sem hjólararnir eru í góð skil. Enda eru þeir Neil og Si ekkert að skafa af aðdáun sinni á íslenskri náttúru. Segir Neil, sem er meiri fjallahjólamaður en Si, að útsýnið sé æðislegt og að fara niður brekkurnar sé einstaklega þægilegt. Segja þeir undirlagið, sem er að megninu til er á vikurbreiðum, vera fullkomið fyrir reiðhjólamenn.

Fara þeir frá Hrafntinnuskeri um Fjallabak og í Hungurfit og svo Hekluleiðina.

Myndband GCN fókusar á ferðina út frá malarhjólreiðum og upplifun Si.

Myndband GMBN fókusar á ferðina meira út frá sjónarhorni fjallahjólreiða og upplifun Neil.

Magne tekur undir þetta við blaðamann og segir að það finnist varla betri aðstaða fyrir malarhjólreiðar en á þessu svæði. Segir hann að þjöppuð eldfjallaaskan hafi þessa þægilegu eiginleika og að menn trúi því varla þegar þeir fari um gróft eldfjallalandslagið.

Icebike adventures hefur í ár verið með nokkrar sérferðir þar sem horft er til malarhjólreiða og segir Magne að með þeirri sprengingu sem sé á þessu sviði erlendis ætli fyrirtækið að taka skrefið til fulls á næsta ári og bjóða upp á mikinn fjölda slíkra ferða. „Þetta var varla til fyrir þremur árum, en er nú orðið risastórt. Menn eru ekki byrjaðir að kveikja almennilega á þessu hér,“ segir hann.

Magne segir að aðstaðan fyrir malarhjólreiðar hér á landi sé …
Magne segir að aðstaðan fyrir malarhjólreiðar hér á landi sé í heimsklassa. Ljósmynd/Icebike adventures

Munurinn á venjulegum fjallahjólaferðum og malarhjólaferðum er að í fjallahjólaferðum er farið um grófari og tæknilegri leiðir. Eru það oft svokallaðir einstígar og slóðar, en í malarhjólreiðum er oftast farið um vegslóða og svo að litlu leyti inn á tæknilegri slóða. Magne segir að þetta höfði því í raun til alveg nýs markhóps. Fjallahjólarar sækist lítið í þetta, þeir vilji tæknilegri leiðir, en götuhjólreiðamenn sem hingað til hafa sótt í malbik sjái þarna tækifæri á komast í betri tengingu við náttúruna og prófa eitthvað nýtt. Á sama tíma séu þeir á hjóli sem líkist götuhjóli og hjóli mun fleiri kílómetra en í hefðbundinni fjallahjólaferð. „Gravel-fólk vill kílómetra og fer auðveldlega 100 kílómetra á dag, en fjallahjólaliðið er meira í að njóta útsýnisins og taka myndir,“ segir hann og bætir við að það vilji svo meiri bratta og tæknilegri leiðir.

Ferðamenn sem koma hingað til lands og sækja í malarhjólaferðir eru að sögn Magne fólk sem stendur nokkuð vel fjárhagslega. „Þetta er útivistarþenkjandi fólk með talsverða peninga.“ Hann segir markhópinn vel getað orðið svipað stóran á stuttum tíma og er með fjallahjólahópinn sem kemur hingað til lands á hverju ári.

Hann segir að myndbönd sem þessi séu auðvitað mjög góð auglýsing. Hann á þó ekki von á sprengju, en að þetta sé mjög góð byrjun fyrir að kynna malarhjólreiðar hér á landi.

Í malarhjólreiðum er farið um vegslóða meirihluta af tímanum.
Í malarhjólreiðum er farið um vegslóða meirihluta af tímanum. Ljósmynd/Icebike adventures
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert