Tvær alvarlegar líkamsárásir fyrir norðan

mbl/Arnþór

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur til rannsóknar tvær alvarlegar líkamsárásir sem áttu sér stað síðdegis í gær.

Önnur þeirra er rannsökuð sem tilraun til manndráps þar sem hnífi var beitt eftir að áflog brutust út á milli tveggja manna á Geislagötu við útibú Arion banka á Akureyri. Vitni urðu að atburðinum og kölluðu til lögreglu, að því er kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Gerandinn yfirgaf vettvang áður en lögreglan kom, en var handtekinn skömmu síðar. Þolandi árásarinnar var fluttur á Sjúkrahús Akureyrar þar sem hann fór í aðgerð í gærkvöldi. Hann er ekki talinn í lífshættu. Málið er rannsakað sem tilraun til manndráps þar sem verknaðaraðferðin sem beitt var gefur tilefni til þess.

Vitni voru yfirheyrð í gærkvöldi og húsleit framkvæmd á dvalarstað geranda, þar sem blóðugur hnífur fannst falinn. Lögregla hefur þess að auki kallað eftir gögnum úr eftirlitsmyndavélakerfum í nærumhverfi brotavettvangs. Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir manninum á grundvelli almannahagsmuna síðar í dag.

Starfsmenn PCC Bakka í átökum

Hin líkamsárásin átti sér stað á milli tveggja starfsmanna í vistarverum PCC á Bakka við Húsavík síðdegis í gær. Báðir voru fluttir með tveimur sjúkrabílum á Sjúkrahús Akureyrar í kjölfar hennar. Annar þeirra var handtekinn í gærkvöldi eftir aðhlynningu og rannsóknir á sjúkrahúsinu. Hinn var lagður inn á sjúkrahúsið í gærkvöldi og eftir útskrift þaðan í dag var hann einnig handtekinn.

Báðir mennirnir eru grunaðir um líkamsárás á hvor annan, þar sem hættulegri verknaðaraðferð var beitt. Skýrslutökur af mönnunum eru fyrirhugaðar í dag. Ekki er búið að taka ákvarðanir um þvingunaraðgerðir á borð við gæsluvarðhald eða farbann.

Lögreglan getur ekki veitt frekari upplýsingar að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert