Vonast til þess að ná 80% olíunnar

Nokkur fjöldi fólks hefur fylgst með björgunaraðgerðum í Helguvík, en …
Nokkur fjöldi fólks hefur fylgst með björgunaraðgerðum í Helguvík, en flutningaskipið Fjordvik strandaði þar aðfararnótt laugardags. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vonir standa til þess að hægt verði að dæla 80 tonnum af þeim 104 tonnum af gasolíu úr flutningaskipinu Fjordvik sem strandaði í Helguvík aðfararnótt laugardags. Þetta segir Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, en fulltrúi stofnunarinnar hefur í dag fylgst með undirbúningi fyrir dælingu olíu úr skipinu, en undirbúningurinn er á lokastigum.

„Hafnaryfirvöld óskuðu eftir aðkomu okkar og annarra hlutaðeigandi stofnana að þessu máli. Við höfum veitt ráðgjöf, og þá aðallega um mögulega mengun á svæðinu. Við höfum unnið mjög vel saman,“ segir Ólafur. 

Pöllum var komið fyrir í nótt svo ganga mætti út …
Pöllum var komið fyrir í nótt svo ganga mætti út í skipið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki útlit fyrir leka úr olíutönkum

„Okkar sérþekking liggur í viðbrögðum við bráðamengun og við þekkjum ansi vel til þessara mála. Nú er verið að dæla olíu úr skipinu í tanka á landi og starfsmaður okkar fylgist með því að farið sé rétt að, þ.e.a.s. að gengið sé þannig frá málum að það leki ekki olía við dælinguna,“ segir Ólafur.

Sérfræðingar hollenska björgunarfyrirtækisins Ardent sem fóru í skipið í morgun sáu ekki merki um að olíutankar skipsins væru lekir. Lítil merki hafa verið um olíumengun frá því skipið strandaði.

Margir hafa lagt hönd á plóg í björgunaraðgerðum.
Margir hafa lagt hönd á plóg í björgunaraðgerðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þeir könnuðu ástand skipsins og gátu ekki séð á þeim tíma að tankarnir væru lekir. Þetta eru þær fregnir sem við höfum fengið,“ segir hann. 

Vonast til þess að ná 80 tonnum upp úr skipinu

Ólafur segir að vonast sé til þess að megninu af olíunni verði hægt að dæla úr skipinu.

„Það er gert ráð fyrir því að hægt verði að ná úr skipinu um 80 tonnum af olíu, en það á eftir að koma í ljós hvernig það gengur. Því meira sem menn geta losað, því betra,“ segir hann.

Skrokkur skipsins er nokkuð illa farinn, en eftir skoðun á …
Skrokkur skipsins er nokkuð illa farinn, en eftir skoðun á skipinu í morgun var talið að ekki læki úr olíutönkum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það gæti tekið marga klukkutíma að dæla án þess að fullyrt verði um það. Ég get ímyndað mér að þetta taki allt að hálfum sólarhring u.þ.b. Ég held þetta taki alla vega ekki styttri tíma en það,“ segir Ólafur og bendir á að olíu sé að jafnaði dælt niður úr skipum með mun öflugri dælum og slöngum. 

Lán í óláni að ekki sé svartolía í tönkunum

Gasolían sem um borð er í Fjordvik er mun skárri gagnvart umhverfinu en t.d. svartolía, en hún brotnar hraðar niður í náttúrunni að sögn Ólafs.

Skipsskrokkurinn hefur legið utan í stórgrýti í hafnargarðinum í Helguvík …
Skipsskrokkurinn hefur legið utan í stórgrýti í hafnargarðinum í Helguvík og skemmst talsvert. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Að fá svartolíu niður er mjög slæmt og getur haft mikil og varanleg áhrif. Þessi olía brotnar hraðar niður í umhverfinu og veðuraðstæður eins og þær sem voru í gær hjálpa til við niðurbrotið. Þó getur olían sest til botns og valdið skaða þar í staðinn. Svartolían er meira eins og tjara,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert