Rannsóknarnefnd ræddi við skipstjórann

Fjordvik við hafnargarðinn í Helguvík.
Fjordvik við hafnargarðinn í Helguvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rannsóknarnefnd samgönguslysa ræddi við skipstjóra flutningaskipsins Fjordvik, sem strandaði í Helguvík, á laugardaginn. Nefndin hefur ekki rætt við fleiri úr áhöfninni en sennilega verður einnig rætt við hafnsögumann skipsins. 

„Það voru ekki margir uppi í brúnni. Við förum ekki að tala við alla áhöfnina,“ segir Einar Ingi Einarsson, rannsakandi á sjósviði hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa. Hann segir að málið sé í rannsókn og að það sé „alltaf flókið þegar svona stórtjón verður“.

Hann vill ekkert tjá sig á þessu stigi málsins um hvað varð til þess að skipið strandaði. „Við þurfum að bera þetta allt undir nefndarmenn og það þarf að taka afstöðu þar með þetta mál. Við erum bara að safna gögnum.“

Spurður hvort rannsóknarnefndin muni framkvæma sjópróf vegna strandsins segir Einar Ingi það liðna tíð. „Við erum ekki í því að skipta sök. Við erum bara í því að komast að því hvað kom fyrir til að geta lært af því,“ segir hann og bætir við að nefndin verði í mesta lagi áheyrnarfulltrúi ef sjópróf fer fram að ósk tryggingafélaga. Sýslumaður sjái um slíkt próf.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert