„Ég mun halda áfram að gera mitt besta“

Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air, segir að síðustu …
Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air, segir að síðustu sólarhringar hafi verið þeir erfiðustu sem hann hefur upplifað á ævinni. Ljósmynd/Aðsend

„Síðustu 72 klukkustundir hafa verið einhverjar þær erfiðustu á ævinni þar sem ég þurfti að taka ákvarðanir um framtíð WOW air á mjög erfiðum tímum.“ Þetta segir Skúli Mo­gensen, stofn­andi og for­stjóri WOW air, í færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni fyrir stundu.

Skúli er sannfærður um að ákvörðunin hafi verið sú rétta og framtíð WOW air sé tryggð sem hluti af Icelandair Group. Augljóslega hafi það ekki verið áætlunin í upphafi né heldur sú sýn sem hann hafði fyrir WOW air.

Þá segir hann að WOW air verði áfram rekið sem lággjaldaflugfélag undir sömu merkjum, með eigin stjórnendur og starfsfólk. Skúli fer fögrum orðum um Icelandair í færslunni. „Icelandair hefur verið frumkvöðull í flugrekstri á Íslandi í 80 ár og byggt upp frábært net og ég er sannfærður að með báðum vörumerkjum og sameiginlegri reynslu fyrirtækjanna tveggja mun okkur takast að þróa og byggja upp alþjóðaflugfélag sem mun standa af sér sífellt harðara samkeppnisumhverfi í fluggeiranum,“ segir í færslu Skúla.

Skúli segist einnig vera afar stoltur af starfsfólki sínu og þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað síðustu sjö ár og segir hann að WOW air hafi staðið sig vel í samkeppni við mörg af stærstu og bestu flugfélögum í heimi. „Ég er 100% skuldbundinn til þess að tryggja að næsti kafli í sögu WOW verði farsæll og að starfsfólk okkar muni halda áfram að innleiða nýjunar og veita farþegum stórkostlega þjónustu á besta verði sem mögulegt er,“ segir Skúli.

Þá þakkar hann öll þau hlýju orð í hans garð síðustu daga. „Ég mun halda áfram að gera mitt besta fyrir farþega og starfsfólk okkar.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert