Hitabylgja í nóvember

Kort/Veðurstofa Íslands

Spáð er allt að tíu stiga hita sunnanlands í dag en að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands stafa hlýindi sem ríkja næstu daga af víðáttumiklu og djúpu lægðasvæði suður í hafi, sem flytur hlýtt og rakt loft sunnan úr hafi til vesturs.

Rakinn veldur því að það rignir talsvert á landinu, einkum þó sunnan- og austanlands. Dýpt lægðasvæðisins veldur stífum austanvindi, sums staðar hvassviðri við suðurströndina og jafnvel vestanlands. Búast má við snörpum vindhviðum við fjöll sunnan- og vestanlands í dag og eru vegfarendur hvattir til að fara varlega. Um helgina hallast vindur í norðaustur og hvessir þá enn og kólnar nokkuð fyrir norðan, en þá má búast við slyddu til fjalla, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Austlæg átt, víða 8-13 m/s og rigning eða súld með köflum, en 13-20 m/s S- og V-lands fram undir kvöld, hvassast við fjöll. Rofar til fyrir norðan eftir hádegi. Austan 10-18 á morgun, hvassast syðst og rigning víða á landinu, en þurrt að kalla NV-til. Hiti 2 til 10 stig, hlýjast syðra.

Á föstudag:

Austan 10-18 m/s, hvassast syðst. Rigning á S- og A-landi, en annars þurrt. Hiti 2 til 9 stig, hlýjast S-lands. 

Á laugardag:
Norðaustan 10-18 m/s, en 13-20 um kvöldið, hvassast NV-til. Rigning á A-verðu landinu, skúrir NV-til, en annars þurrt. Hiti 2 til 9 stig, hlýjast syðst. 

Á sunnudag:
Norðaustanhvassviðri og slydda NV-til, en annars mun hægari suðaustanátt og rigning með köflum. Hiti 2 til 7 stig til kvölds, en kólnar síðan. 

Á mánudag:
Stíf norðaustanátt NV-lands, en annars mun hægari vindur. Él á N-verðu landinu, en bjart sunnan heiða. Hiti 0 til 5 stig. 

Á þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir austlæga átt, úrkomu með köflum og fremur svalt veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert