Aðgerðalítið veður næstu daga

Kort/Veðurstofa Íslands

Vindur verður yfirleitt með rólegra móti fyrri hluta vikunnar og einnig  verður úrkomulítið á landinu en  búist er við rigningu eða slyddu norðan- og austanlands í dag.

„Hægt er að tala um aðgerðalítið veður, sér í lagi ef haft er í huga hvað þessi árstími getur borið í skauti sér.  Ef við gægjumst lengra fram í tímann þá er úrkomusvæði væntanlegt yfir landið á fimmtudag, þá verður enginn landshluti þurr.

Síðan eru spár nokkuð sammála um að á föstudag gangi í stífa sunnanátt og það hlýni. Á laugardag og sunnudag heldur síðan sunnanáttin áfram með hita 7 til 13 stig á landinu.

En sunnanáttinni fylgir ekki bara hlýtt loft, heldur einnig raki, búast má við rigningu og súld frá föstudegi til sunnudags sem einkum verður bundin við sunnan- og vestanvert landið eins og venja er í þessari vindátt,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Norðaustan 3-8 m/s í dag, en 8-13 á Vestfjörðum. Lengst af rigning eða slydda um landið norðan- og austanvert, en þurrt suðvestan til. 
Austan 3-10 á morgun. Bjartviðri suðvestanlands, en dálítil rigning eða slydda um tíma í öðrum landshlutum.
Hiti 0 til 6 stig.

Á þriðjudag:
Austan 3-10 m/s. Þurrt á Suðvestur- og Vesturlandi, en rigning eða slydda um tíma annars staðar á landinu. Hiti 1 til 6 stig. 

Á miðvikudag:
Suðaustan 5-10 og smáskúrir sunnanlands, hiti 2 til 6 stig. Hægari vindur í öðrum landshlutum, yfirleitt þurrt og hiti kringum frostmark. 

Á fimmtudag:
Suðaustan 5-10, en 10-15 suðvestan til á landinu. Rigning eða slydda, en úrkomulítið fyrir norðan. Hiti 1 til 6 stig, mildast með suðurströndinni. 

Á föstudag:
Gengur í allhvassa eða hvassa suðaustanátt með rigningu, einkum sunnan- og vestanlands. Hlýnar í veðri. 

Á laugardag og sunnudag:
Útlit fyrir sunnanátt með rigningu og súld, en þurrt norðaustan til á landinu. Hiti 7 til 12 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert