3 þúsund krónur á fermetra

Þingholtin eru í 101.
Þingholtin eru í 101. mbl.is/Ómar Óskarsson

Árshækkun vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu var 6,1% í september. Til samanburðar hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu um 3,9% á sama tíma, launavísitala um 5,9% og vísitala neysluverðs um 2,7%. Árshækkun leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur nú verið meiri en árshækkun vísitölu neysluverðs í þrjátíu og átta mánuði í röð eða frá því í júlí 2015. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íbúðalánasjóðs.

Á þessu tímabili hefur leiguverð samtals hækkað um 32% umfram vísitölu neysluverðs. Þróun leiguverðs fylgdist nokkuð vel að milli landsvæða á árunum 2012–2016 en árið 2017 byrjaði leiguverð að þróast með nokkuð ólíkum hætti eftir svæðum, þ.e. í Reykjavík, öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, nágrannasveitarfélögum og annars staðar á landsbyggðinni.

Undanfarin tvö ár eða svo hefur leiguverð hækkað mest í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og innan höfuðborgarsvæðisins hefur leiguverð hækkað minna í Reykjavík en öðrum sveitarfélögum. Allra síðustu mánuði hefur leiguverð annars staðar á landsbyggðinni hækkað hratt. Árshækkun leiguverðs í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins er nú 12,9% og árshækkun leiguverðs annars staðar á landsbyggðinni er 14,5%.

Póstnúmerið 101 Reykjavík er það póstnúmer á landsvísu þar sem fermetraverð í þinglýstum leigusamningum er hæst eða hátt í 3.000 krónur að meðaltali á fyrstu níu mánuðum ársins. Póstnúmerið 107, sem nær til Vesturbæjar Reykjavíkur, er ekki langt undan en þar var fermetraverð um 4% lægra en í 101 Reykjavík á sama tímabili.

Í 200 Kópavogi var verðið um 10% lægra en í miðborginni og í 220 Hafnarfirði var það um 21% lægra. Á Akureyri, Selfossi og í Reykjanesbæ var meðalfermetraverð um eða undir 2.000 krónum eða um þriðjungi lægra en í 101 Reykjavík, segir í skýrslu Íbúðalánasjóðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert