Stórbruni í Hafnarfirði

Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu hefur verið kallað út vegna mikils elds í Glugga- og hurðasmiðju SB á Hvaleyrarbraut 39 í Hafnarfirði.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um eldinn klukkann 22.12 í kvöld. Mikill eldur er og berast sprengingar frá staðnum og að sögn ljósmyndara mbl.is sem er á vettvangi er þakið á húsinu fallið.

Allt tiltækt slökkvilið hefur verið boðað á staðinn og hafa allir slökkviliðsmenn sem eru á frívakt verið kallaðir út.

Fjölmennt lið lögreglu og slökkviliðs er á staðnum að reyna að ráða niðurlögum eldsins. Í tilkynningu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér er fólk beðið að koma alls ekki á vettvang, þar sem það bæði flæki björgunarstarf gríðarlega og geti sett fólk í hættu.

Ranglega var greint frá því í upphafi að bruninn væri í húsakynnum Stálorku, sem er í húsnæðinu við hliðina. 

„Við erum með fullt af mannskap og búnaði á staðnum og þetta er bara mikið bál,“ segir slökkviliðsmaður á vakt í samtali við mbl.is.

Mikill eldsmatur er í húsinu og unnið er að því að slökkva eldinn utan frá. „Við erum ekki að senda fólk inn í þetta,“ segir hann. Vindáttin er þá sögð vera hagstæð og því eru önnur hús ekki talin í hættu eins og er.

Þetta er í annað skipti sem húsakynni Glugga- og hurðasmiðjunnar brenna, en eldur kom einnig upp í húsakynnum fyrirtækisins árið 1996 er það var innar í bænum.

Fréttin verður uppfærð.

Mikill eldur logar í Glugga og hurðasmiðju SB í Hafnarfirðinum.
Mikill eldur logar í Glugga og hurðasmiðju SB í Hafnarfirðinum. mbl.is/Kristinn Magnússon
Fjölmennt lið lögreglu og slökkviliðs er nú á staðnum að …
Fjölmennt lið lögreglu og slökkviliðs er nú á staðnum að reyna að ráða niðurlögu eldsins. mbl.is/Kristinn Magnússon
Mikill eldur er í húsinu.
Mikill eldur er í húsinu. Ljósmynd/Aðsend
Mikill eldsmatur er í húsinu, en þakið á því er …
Mikill eldsmatur er í húsinu, en þakið á því er nú fallið. mbl.is/Kristinn Magnússon
Lögregla biður fólk að halda sig fjarri.
Lögregla biður fólk að halda sig fjarri. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is