Vilja 300 milljónum meira

Úr sjónvarpsþáttunum Ófærð.
Úr sjónvarpsþáttunum Ófærð.

Fordæmalaus spurn eftir leiknu íslensku sjónvarpsefni hefur skapast að mati félaga þeirra sem koma að íslenskri kvikmynda- og sjónvarpsgerð og hvetja þau alla alþingismenn til þess að taka undir breytingartillögu við fjárlögin og hækka framlög til sjónvarpssjóðs um 300 milljónir króna.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samtökum kvikmyndaleikstjóra, Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félagi kvikmyndagerðarmanna og Félagi leikskálda og handritshöfunda.

Breytingartillögunni við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er teflt fram af Samfylkingunni og felur í sér hækkun framlaga til sjóðsins sem heyrir undir Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Félögin hafa sent öllum alþingismönnum fyrrnefnda hvatningu og segja þau í tilkynningu til fjölmiðla að „með tilkomu nýrra efnisveitna hefur skapast fordæmalaus eftirspurn eftir leiknu íslensku sjónvarpsefni.“

Þá segir að þáttaraðir eins og Ófærð, Réttur, Fangar, Stella Blómkvist og fleiri hafi verið sýndar um allan heim og eru aðgengilegar hundruðum milljóna áhorfenda í gegnum efnisveitur á borð við Netflix, NBC, AMC og BBC.

Fullyrða félögin að úttektir sýni fram á að hver króna sem hið opinbera leggur til kvikmyndagerðar skili sér margfalt til baka. „Tekjur ríkisins eru því mun meiri en kostnaður, þar sem stærstur hluti framleiðslufjármagns kemur erlendis frá en allir skattar eru greiddir á Íslandi.“

Þættirnir Stella Blómkvist, með Heiðu Rún Sigurðardóttur, nutu mikilla vinsælda.
Þættirnir Stella Blómkvist, með Heiðu Rún Sigurðardóttur, nutu mikilla vinsælda.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert