Spölur hefur sent út lokaútkall í inneignir

Starfsfólk Spalar með fangið fullt af veglyklum og afsláttarmiðum sem …
Starfsfólk Spalar með fangið fullt af veglyklum og afsláttarmiðum sem fólk hefur skilað inn undanfarið. sín Ljósmynd/Atli Rúnar Halldórsson

Spölur hefur sent út lokaútkall til þeirra sem eiga fjármuni hjá félaginu. Allra síðasti dagur til að skila veglyklum og ónotuðum afsláttarmiðum í Hvalfjarðargöng er föstudagurinn 30. nóvember. Enn eru ógreiddar vel á annað hundrað milljónir króna.

Búið er að endurgreiða um 195 milljónir króna samtals, þar af um 120 milljónir sem eru endurgreidd veggjöld, um 58 milljónir í skilagjöld af veglyklum og ríflega 17 milljónir í endurgreiðslu á afsláttarmiðum.

Þetta upplýsir Anna Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Spalar í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Starfsmenn félagsins hafa nú greitt viðskiptavinum félagsins liðlega helming þeirra fjármuna sem þeir áttu á áskriftarreikningum sínum (andvirði ónotaðra ferða á veglykli) þegar ríkið tók við rekstri Hvalfjarðarganga 1. október sl. eða um 120 milljónir króna af alls 231 milljón króna, sem var staðan í lok september.

Verri skil á afsláttarmiðum

Afsláttarmiðar hafa skilað sér hlutfallslega verr en veglyklar, eins og félagið bjóst við. Alls voru 111.000 ónotaðir miðar útistandandi í lok september, þegar Spölur hætti innheimtu veggjalda, að verðmæti um 71 milljón króna. Nú hefur Spölur greitt á átjándu milljón króna fyrir liðlega 27.000 miða.

Þessar tölur eiga einungis við um frágengin uppgjörsmál en mun fleiri veglyklar og afsláttarmiðar eru komnir í hús og bíða úrvinnslu. Nokkurn tíma tekur að vinna úr því sem safnast hefur fyrir á skrifstofu Spalar og við bætist svo allt það sem á eftir að skila sér til mánaðamóta.

Viðskiptavinir Spalar eru hvattir til að skila veglyklum og afsláttarmiðum fyrir lok nóvember og þessa dagana er umtalsverð ös á afgreiðslustöðum.

Í desember er stefnt að því að ljúka uppgjöri við alla þá sem skiluðu lyklum og miðum fyrir lok nóvember. Jafnframt því mun starfsfólk Spalar leggja sig fram um að reyna að ná sambandi við þá sem ekki létu í sér heyra fyrir 1. desember en eiga inni á áskriftarreikningum hjá félaginu. Hægt að er að nálgast upplýsingar um endurgreiðslur á vefsíðunni www.spolur.is.

Unnið verður að lokauppgjöri Spalar og frágangi af ýmsu tagi fram á árið 2019. Félaginu verður síðan slitið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert