Undirliggjandi taugaspenna í tvö ár

Auður Jónsdóttir rithöfundur.
Auður Jónsdóttir rithöfundur. mbl.is/Arnþór

„Ég er mjög þakklát og í rauninni mjög fegin að vera komin út úr þessu ferli en á sama tíma finnst mér það hafa verið mjög lærdómsríkt,“ segir Auður Jónsdóttir rithöfundur. Hæstiréttur hefur hafnað áfrýjunarbeiðni Þórarins Jónassonar sem höfðaði meiðyrðamál gegn henni en tapaði bæði í héraðsdómi og Landsrétti.

„Eftir á séð er ég í rauninni fegin að hafa upplifað þetta þó að þetta hafi tekið á,“ segir hún í samtali við mbl.is en fyrr í morgun skrifaði hún um málið á Facebook-síðu sína.

Héraðsdómur sýknaði á sínum tíma Auði í málinu, sem snýst um grein sem hún skrifaði og var birt í Kjarnanum 13. júní 2016 undir fyrirsögninni „Forseti landsins“. Þórarinn áfrýjaði málinu til Landsréttar sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms í síðasta mánuði.

Auður segir málið hafa staðið yfir í um tvö ár og að um æfingu í æðruleysi hafi verið að ræða fyrir hana, enda geti mál sem þessi endað í margra milljóna króna málskostnaði. „Ég gerði líka þessa bók, Þjáningarfrelsið, til að reyna að búa til eitthvað gott úr þessu og lyfta þessu á æðra plan.“

Hún kveðst ekkert hafa vitað um ferlið í kringum dómsmál þegar málið hófst og verið „algjör græningi“. Í framhaldinu hafi hún lært eitthvað á öllum stigum málsins. „Í rauninni hefur verið undirliggjandi taugaspenna allan þennan tíma,“ segir hún en tekur einnig fram að það hafi verið skemmtilegt að fá innsýn inn í „heim laga og orða“ og „að upplifa lögmenn í sinni mælskulist“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert