Búast má við að samgöngur raskist

Afar slæmu veðri er spáð næstu tvo daga og hef­ur …
Afar slæmu veðri er spáð næstu tvo daga og hef­ur Veður­stof­an gefið út gula viðvör­un fyr­ir stór­an hluta lands­ins eft­ir há­degi á morg­un.

„Það hvessir smám saman í nótt og á morgun og er raunar að byrja að hvessa við suðvesturströndina og á Vestfjörðum,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á vakt á Veðurstofu Íslands. „Það bætir jafnt og þétt í vindinn. Svo kemur úrkoman með þegar líður á morguninn og eftir miðjan dag verður þetta orðið leiðindaveður býsna víða.“

Afar slæmu veðri er spáð næstu tvo daga og hef­ur Veður­stof­an gefið út gula viðvör­un fyr­ir stór­an hluta lands­ins eft­ir há­degi á morg­un. Viðvör­un­in gild­ir til miðnætt­is á fimmtu­dag og er spáð allt að 50 metr­um á sek­úndu í hviðum. Bú­ast má við því að sam­göng­ur rask­ist vegna roks og snjó­komu og gæti innanlandsflug m.a. raskast. Eru ferðamenn því hvatt­ir til að fylgj­ast vel með veður­spám og -viðvör­un­um.

Óli Þór segir að þótt leiðindaveður verði um land allt verði veðrinu engu að síður nokkuð misskipt. „Það verður t.d. mjög hvasst á Vestfjörðum, en ekki kannski endilega mjög mikil úrkoma,“ segir hann og kveður útlit fyrir skafrenning og frost á þeim slóðum. „Eftir því sem kemur austar með Norðurlandinu eykst hins vegar úrkoman en vindurinn minnkar.“

Hiti verður í  kringum frostmark við ströndina, en vægt frost inn til landsins. Í 100-200 m hæð yfir sjávarmáli  á Norðurlandi verður þá líklega snjókoma. „Það er ekki heppilegt hitastig t.d. varðandi ísingu á raflínum. Það skefur í þessu líka og þá er viðbúið að færð spillist.“

Á Austfjörðum verður líklega hvað mest úrkoman, en ekkert sérlega mikill vindur. Þar verður hins vegar líklega aðeins hlýrra.

„Svo þegar komið er á Suðausturland minnkar úrkoman en vindurinn eykst aftur á móti töluvert,“ segir Óli Þór og kveður langhvassast verða á þeim slóðum. „Þar má reikna með að meðalvindur nái upp í 25 m/s á vindasömustu stöðunum.“ Þetta geti til að mynda átt við á vissum svæðum í Öræfasveitinni sem geti orðið mjög snúin í norðaustanátt. „Þar má reikna með að hviður fari upp yfir 40 m/s og geti jafnvel farið upp undir 50 m/s ef vindurinn hittir þannig á.“

Á Faxaflóasvæðið verður eingöngu vindasamt og má þá búast við að vindstyrkurinn verði hvað mestur á sunnanverðu Snæfellsnesi, Hafnarfjalli og Kjalarnesi. „Þetta eru þessir þekktu staðir í norðaustanáttinni,“ segir Óli Þór. Þar megi reikna með yfir 20 m/s meðalvindi og hviðum sem verði tvöfalt öflugri.

Aðfaranótt föstudag fer loks að draga úr veðrinu, en þó verður enn nokkuð hvasst á föstudagsmorgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert