Segir sig úr bankaráði Seðlabankans

Vilborg Hansen.
Vilborg Hansen.

Vilborg G. Hansen, sem gegnt hefur varamennsku í bankaráði Seðlabankans fyrir hönd Miðflokksins, hefur sagt sig úr Miðflokknum og samhliða því úr bankaráði. Ástæðuna segir hún vera ummæli þingmanna Miðflokksins á barnum Klaustri sem greint var frá í gær.

Vilborg greinir frá úrsögn sinni á Facebook í dag, en hún sendi bréfið bæði á Gylfa Magnússon, formann bankaráðs, og Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis. „Ég undirrituð segi mig hér með úr varamannsku [sic] í bankaráðs [sic] Seðlabanka þar sem mér er ómögulegt að styðja lengur þann flokk sem ég sit í umboði fyrir eftir fréttir gærdagsins í Dv og Stundinni,“ segir Vilborg í færslunni.

Vilborg var fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar í öðru sæti Miðflokksins í Reykjavík, en hún sagði sig síðar af listanum og tók þá Baldur Borgþórsson sæti hennar.

mbl.is