Skoða hvort sekta eigi Tekjur.is

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Persónuvernd hefur það til skoðunar hvort sekta eigi fyrirtækið Viskubrunn ehf. fyrir að gera gagnagrunn með upplýsingum úr skattskrám fyrir árið 2016 aðgengilegan á vefsíðunni Tekjur.is. Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir í samtali við mbl.is að málinu sé að öðru leyti lokið af hálfu stofnunarinnar. „Það er alveg ljóst að þegar það er komin ákvörðun eða úrskurður frá stjórn Persónuverndar þá er það endanleg málslok,“ segir hún.

Persónuvernd hóf athugun að eigin frumkvæði eftir að vefsíðan Tekjur.is opnaði 12. október þar sem veitt­ur var aðgang­ur gegn gjaldi að upp­lýs­ing­um um tekj­ur allra ein­stak­linga á ár­inu 2016 sam­kvæmt gögn­um rík­is­skatt­stjóra. Stjórn Persónuverndar kvað upp úrskurð í gær þar sem kemur fram að forráðamenn vefsins hafi ekki haft heimild til að birta upplýsingarnar og krafðist Persónuvernd að síðunni yrði lokað.

Í tilkynningu frá lögmanni vefsíðunnar kemur fram að  taf­ar­laust hafi verið farið að ákvörðun stjórn­ar Per­sónu­vernd­ar og að vefsíðunni hafi verið lokað. Þá er forráðamönnum vefsins gert að eyða gagnagrunninum og þeim upplýsingum sem þeir kunna að hafa undir höndum og hafa þeir frest til 5. desember til að senda Persónuvernd staðfestingu á því að farið hafi verið að þessum fyrirmælum.

Óheimilt að birta upplýsingar úr skattskrá rafrænt

Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að ekki megi setja upplýsingar sem birtast í skattskrá fram með rafrænum hætti. Þar segir einnig að ríkisskattstjóri hafi heimild til að birta upplýsingar um álagða skatta. Ef hann veitir öðrum umboð til birtingar eða útgáfu verði að fara að skilmálum ríkisskattstjóra. Svo hafi ekki verið gert í þessu tilviki og því er það niðurstaða Persónuverndar að forráðamenn vefsins hafi ekki verið heimilt að vinna með persónuupplýsingar í gögnunum.

Í tilkynningu frá lögmanni vefsíðunnar segir að forráðamenn vefsins telji ákvörðun stjórn­ar Per­sónu­vernd­ar í and­stöðu við lög og hyggj­ast þeir skoða rétt­ar­stöðu sína. 

mbl.is