Beðnir að víkja af nefndarfundi

Karl Gauti var beðinn um að víkja af nefndarfundi í …
Karl Gauti var beðinn um að víkja af nefndarfundi í hádeginu. mbl.is/​Hari

Bergþór Ólason og Karl Gauti Hjaltason viku báðir af fundi umhverfis- og samgöngunefndar í hádeginu í dag. 

„Við í umhverfis- og samgöngunefnd glímum við þann vanda að formaður nefndarinnar er Bergþór Ólason en hann hefur ekki stýrt fundi í dag. Hann var hér í morgun en hann vék af fundi,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd. 

Spurð um hvort brotthvarf Bergþórs hafi verið að beiðni nefndarmanna segir hún að hann hafi orðið áskynja að þess yrði vænst og það kom ekki til þess.

Helga Vala Helgadóttir á Alþingi.
Helga Vala Helgadóttir á Alþingi. mbl.is/​Hari

„Við höfum auðvitað enga heimild til að víkja öðrum nefndarmönnum af fundi. Í þingsköpum má þingmaður sitja nefndarfund. En við óskuðum jafnframt eftir því að Karl Gauti Hjaltason viki af fundi meðan bæjarstjóri Vestmannaeyja kæmi á fundinn,“ segir Helga og bætir við að það hafi bara verið vinsamleg tilmæli.

Spurð um hvernig Karl Gauti hafi tekið í það að hafa verið beðinn um að víkja sagði hún einungis að hann hafi vikið af fundinum.

„Þetta er sú staða sem við erum öll sett í og það er algjörlega óásættanlegt.“

Spurð um hvort hún telji nauðsynlegt að þeir segi af sér vildi hún ekki segja neitt um það . „Ég spyr bara til baka, geta þeir sinnt störfunum sínum?“ 

Bæjarstjóri Vestmannaeyja er Íris Róbertsdóttir, en samkvæmt frétt DV í dag voru dónaleg ummæli sem féllu á fundi flokksmanna Miðflokksins og Flokks fólksins á barnum Klaustri meðal annars um Írisi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, átti að mæta á fund efnahags- og viðskiptanefndar í dag, en mætti ekki. Hann er einn fjórmenninga í Miðflokknum sem tók þátt í umræðunum á Klaustri. 

mbl.is