Játa sök að hluta í gagnaversmálinu

Tveir sakborningar játuðu sök að hluta er aðalmeðferð hófst í …
Tveir sakborningar játuðu sök að hluta er aðalmeðferð hófst í morgun í Héraðsdómi Reykjaness í gagnaversmálinu svokallaða. mbl.is/Ófeigur

Tveir sakborningar játuðu sök að hluta er aðalmeðferð hófst í morgun í Héraðsdómi Reykjaness í gagnaversmálinu svokallaða. Breyttu þeir afstöðu sinni til ákæruefnisins, að því er RÚV greinir frá, og játuðu að hafa farið inn í gagnaverin sem stolið var úr. Allir sjö sem ákærðir voru í málinu mættu til skýrslutöku í morgun.

Fyrsti sakborningurinn sem gaf skýrslu kvaðst hafa farið einn inn í gagnaver Advania í Keflavík nóttina sem brotist var þar inn. Hann hefði verið í úlpu merktri Öryggismiðstöðinni og borið tölvurnar út. Tveir aðrir hafi svo hjálpað honum að koma tölvunum fyrir í bíl sem hann keyrði svo út af svæðinu.

Segist hann aldrei hafa séð tölvurnar eftir það og sér sé ekki kunnugt hvert þær fóru. Um 600 tölvum var stolið í innbrotunum úr gagnaverum í Reykjanesbæ og Borgarnesi.

Þá sagði þessi sakborningur að það hafi verið Sindri Þór Stefánsson sem hafi boðið sér að taka þátt í innbrotinu. Sindri Þór hafi þó þurft að fá leyfi hjá öðrum fyrir þátttöku hans og það hafi verið annar maður sem þrýsti á um innbrotið og sem var með inngangskóða inn á svæði. Sá maður, sem ekki hafi verið skipuleggjandi innbrotsins, er jafnframt sagður hafa beðið hann að fara til Keflavíkur og fylgjast með umferð á gagnaverssvæðinu, dagana fyrir innbrotið.

Segir RÚV manninn hafa neitað ítrekað að bendla aðra en þann mann við innbrotið eða tjá sig um hver hafi verið með honum og sagðist óttast menn sem ekki væru í dómsalnum, tjáði hann sig um þátt annarra í innbrotunum.

mbl.is