„Það er ekki hægt að réttlæta þetta“

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Hari

Við skulum hafa á hreinu að skömmin er þeirra og allar tilraunir til að reyna að koma því yfir á okkur munu mistakast og við munum aldrei líða það. Þeir geta horft í spegil. Þeirra er skömmin og þeir eiga að taka á sínum málum. Komið þeim ekki yfir á okkur.

Þetta sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag og vísaði þar til ummæla sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur látið falla um að umræða eins og sú sem Sigmundur tók þátt í á krá í miðborg Reykjavíkur á dögunum væri vel þekkt á Alþingi. Sagðist Guðmundur Ingi aldrei hafa heyrt slíka umræðu á vettvangi þingsins það ár sem hann hefði verið þar.

„Ég hef aldrei heyrt svona umræðu. Að klína því yfir á alla aðra er með ólíkindum. Að sitja undir þeirri umræðu er eiginlega stórfurðulegt og þeim til skammar sem ætla að reyna að réttlæta það. Það er ekki hægt að réttlæta þetta. [...] Fyrir utan þetta hlýtur það að drekka í vinnutíma að vera eitt það alvarlegasta sem við gerum og það er öllum til skammar. Ég hef aldrei orðið var við það hér, nema í þessu tilfelli.“

mbl.is