Vonar að Ágúst hafi fengið samþykki

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Sigurður Bogi Sævarsson

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, segist vona að Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður flokksins, hafi birt yfirlýsingu og frásögn frá sínu sjónarhorni með samþykki þolandans, sem varð fyrir áreitni af hans hálfu. 

Spurð hvort birting yfirlýsingarinnar samræmist verklagi flokksins segir hún svo ekki vera. Verklag flokksins nái fram að áminningu, „og svo er það hann sem ákveður að gera þetta með þessum hætti. Þess vegna geri ég ráð fyrir því að hann hafi fengið samþykki konunnar fyrir því“. Spurð hvort orðið hafi trúnaðarbrestur gagnvart konunni, sem leitaði með málið til trúnaðarnefndarinnar, segir Heiða: „Það að birta yfirlýsinguna er algerlega á hans ábyrgð.“

Ágúst Ólafur greindi frá því á Facebook í gær að hann hefði í síðustu viku hlotið áminningu frá trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar vegna „framkomu“ sinnar í garð konu. Atvikið hafi átt sér stað snemma í sumar í miðborg Reykjavíkur. Hans lýsing á atvikum er sú að hann hafi nálgast konuna, sem hann þekkti lítillega, tvívegis og spurt hvort þau ættu að kyssast. Konan hafi sagt nei og gefið skýrt til kynna að það væri ekki í boði með því að banda honum frá sér.

Hann segist hafa orðið sér til „háborinnar skammar“, þar sem hann lét „særandi orð falla“ um konuna eftir að hún hafnaði honum eindregið. Í framhaldinu af áminningunni hafi hann ákveðið að fara í tveggja mánaða launalaust leyfi.

Guðrún Ögmundsdóttir, formaður trúnaðarnefndar Samfylkingarinnar, tjáði mbl.is að úrskurður nefndarinnar yrði ekki gerður opinber þar sem málið væri trúnaðarmál.

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar.
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Spurð hvort að lýsing Ágústs Ólafs sé samhljóða úrskurði trúnaðarnefndarinnar segir Heiða að stjórnin hafi ekki aðgang að úrskurðinum. 

Er yfirlýsingin birt í samráði við flokkinn?

„Hann lætur flokkinn vita.“

Nú birtir Ágúst þetta á Facebook-síðu sinni, segir sína hlið. Er þar verið að gæta hagsmuna konunnar að þínu mati? Eða er þetta varnarræða hans?

„Það er eitthvað sem hann sjálfur þarf að svara, hvernig hann ætlar að vinna úr þessu. Minn hugur er hjá konunni og mér finnst að allt sem við gerum eigi að miða að því að hún sé sátt, ég vona bara að hún sé sátt við það að hann stígi þetta skref, segi frá og taki ábyrgð á málinu með þessum hætti.“

Genguð þið í stjórn Samfylkingarinnar úr skugga um það að konan hafi verið því samþykk að málið yrði opinberað með þessum hætti, trúnaðarmál sem hún kom með fyrir trúnaðarnefnd flokksins?

„Það er auðvitað hann sem ákveður að opinbera þetta en ég vona að hann hafi gert það í samráði við hana.“

Er ekki trúnaðarbrestur að Ágúst hafi opinberað málið, sem konan fór með til trúnaðarnefndar, með þessum hætti?

Það að birta yfirlýsinguna er algerlega á hans ábyrgð.“

Finnst ykkur, í stjórn Samfylkingarinnar, þetta samræmast ykkar verklagi, að gerandi sem hefur fengið áminningu, fari sjálfur fram með málið og lýsi atvikum þess út frá sínu sjónarhorni?

Þetta er ekki hluti af okkar verklagi, okkar verklag nær fram að áminningunni og svo er það hann sem ákveður að gera þetta með þessum hætti. Þess vegna geri ég ráð fyrir því að hann hafi fengið samþykki konunnar fyrir því.“  

Hefði verið eðlilegra ef flokkurinn hefði greint frá þessu frekar en gerandinn?

„Ekki eins og ferlið er sett upp núna. Eins og þetta er núna þá fær hann áminningu en það er ekki tillaga að honum sé vikið úr trúnaðarstörfum. Það er mismunandi verkfæri sem trúnaðarnefndin hefur og þetta er hennar mat á málsatvikum og hún gerir ráð fyrir að þetta sé fullnægjandi, að hann fengi þessa áminningu. Ef niðurstaðan væri að víkja honum úr trúnaðarstörfum þá myndi málið fara til stjórnar Samfylkingarinnar en málið fór í raun til hans, ekki til stjórnar, og hann bregst við því með því að segja frá opinberlega.“

Hversu alvarlegt finnst þér þetta sem Ágúst Ólafur lýsir?

„Mér finnst þetta alveg jafnalvarlegt og konan upplifir það. Ef hún upplifir þessar aðstæður þannig að öryggi hennar hafi verið ógnað, þá trúi ég henni. Hún hlýtur að hafa metið þetta sem alvarlegt, þar sem hún fer með þetta fyrir trúnaðarnefndina. Það er mikilvægt að við trúum þolendum hverju sinni.“

Á siðanefnd þingsins að taka þetta mál fyrir?

„Ég hef í raun engar forsendur til að meta það, ég held að það væri alveg fordæmalaust en það er eitthvað sem ég held að fólk á Alþingi á að meta og skoða.“

 Á hann að segja af sér?

„Ég hef farið varlega að segja fólki fyrir verkum í svona málum. Hann tekur þetta skref núna og fær einhvers konar aðstoð við að vinna úr þessu og síðan verður hann að meta sjálfur hvað honum finnst rétt í framhaldinu.“

Hvers vegna tekur Ágúst tveggja mánaða leyfi?

„Mér sýnist að hann ætli að leita sér einhvers konar hjálpar þannig að hann komi ekki svona fram aftur. Ég vona bara að hann finni réttan farveg.“

 Er það lokahnykkur þessa ferils, sem málið fór í að það yrði opinberað með einhverjum hætti?

„Það er ekki krafa frá trúnaðarnefndinni að mál séu opinberuð. Við viljum að þetta sé vettvangur sem fólk getur treyst og að það komi niðurstaða í mál.“

 Hefði málið verið opinberað ef hann hefði sjálfur kosið að gera það ekki?

„Mögulega ekki. Við eigum eftir að vinna með þann enda, hvort það komi árlegar skýrslur frá trúnaðarnefndinni eða hvernig þau láti vita af niðurstöðu sinna mála en það er ekki víst að það hefði verið.“

Mbl.is hefur ítrekað reynt að ná tali af Ágústi Ólafi í dag en án árangurs. Sömuleiðis hefur Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, ekki svarað símtölum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert