Bára mætt í héraðsdóm

Bára Halldórsdóttir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Bára Halldórsdóttir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Bára Halldórsdóttir, sem hljóðritaði samtal sex þingmanna á kránni Klaustri í nóvember, er mætt í Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem til stendur að taka skýrslu af henni að beiðni lögmanns fjögurra þingmannanna. Hefst þinghaldið klukkan korter yfir þrjú.

Fjölmenni hefur safnast saman í Héraðsdómi Reykjavíkur til að fylgjast …
Fjölmenni hefur safnast saman í Héraðsdómi Reykjavíkur til að fylgjast með. mbl.is/Árni Sæberg

Fram kemur í bréfi héraðsdóms til Báru að ástæða þess að hún sé boðuð til skýrslutökunnar sé sú að fjórir skjólstæðingar Reimars Péturssonar lögmanns hafa lagt fram beiðni um vitnaleiðslur og öflun sýnilegra sönnunargagna vegna atviksins 20. nóvember.

Þeirra á meðal er Freyja Haraldsdóttir.
Þeirra á meðal er Freyja Haraldsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Fjórir þingmenn Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir, og tveir þingmenn Flokks fólksins, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, voru staddir á Klaustri 20. nóvember.

Var þar farið ósæmilegum orðum um ýmsa samþingmenn þeirra sem og ýmsa minnihlutahópa. Bára var stödd á Klaustri að eigin sögn fyrir algera tilviljun. Hefur hún sagt að henni hafi blöskrað tal þingmannanna og ákveðið þess vegna að taka það upp.

Upptökurnar sendi hún í kjölfarið á valda fjölmiðla en naut framan af nafnleyndar en kom síðan fram undir nafni í viðtali við fréttavef Stundarinnar. Þingmenn Miðflokksins sem í hlut átti hafa fullyrt að hljóðritunin hafi verið ólögmæt og talað um að leita réttar síns.

Bára Halldórsdóttir í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Bára Halldórsdóttir í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Talsvert fjölmenni er í dómsalnum. Þar á meðal eru Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, og Freyja Haraldsdóttir, fyrrverandi varaþingmaður, en minnst var á hana á upptökunni.

mbl.is