Tvisvar ákært fyrir að hrækja á lögreglu

Tvisvar var ákært fyrir að hrækja á lögreglumenn við skyldustörf.
Tvisvar var ákært fyrir að hrækja á lögreglumenn við skyldustörf. mbl.is/Arnþór Birkisson

Í síðustu viku voru þrjú mál þingfest þar sem ákært er fyrir brot gegn valdstjórninni, það er fyrir brot gegn lögreglumönnum við störf sín. Í tveimur þessara mála er ákærði sakaður um að hafa hrækt að lögreglumönnum.

Í fyrsta málinu er maður ákærður fyrir að hafa ekið sviptur ökuréttindum og undir áhrifum áfengis, en maðurinn mældist með 2,75 prómill í blóði þegar hann var stöðvaður. Þá er hann ákærður fyrir að hafa ekki hlýtt lögreglu um að stíga út úr bifreiðinni þegar hann var handtekinn og að hafa hrækt í áttina að lögreglumanni þegar hann var keyrður á lögreglustöðina auk þess að sparka í hægri öxl lögreglumannsins.

Í öðru máli er maður ákærður fyrir að hafa hrækt inn um opinn glugga á lögreglubifreið þannig að hrákinn lenti í andliti lögreglumanns sem var við skyldustörf.

Í þriðja málinu var kona stöðvuð vegna ölvunar- og fíkniefnaaksturs og kom í ljós að hún hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Mældist vínandi í blóði hennar vera 0,85 prómill auk þess sem kannabisefni fundust í blóði. Við handtöku sparkaði konan í hné lögreglumanns þannig að hann tognaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert