Íbúar beðnir um að vera vel á verði

mbl.is/Júlíus

Brotist var inn á 142 stöðum á höfuðborgarsvæðinu í nóvember og hefur innbrotatilkynningum fjölgað mikið. Hlutfallslega fjölgar innbrotum í heimahús mest. Lögreglan biður fólk um að vera vel á verði og gæta vel að verðmætum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir nóvembermánuð.

Alls bárust 720 tilkynningar um hegningarlagabrot í nóvember. Heilt yfir fækkaði tilkynningum í þeim brotaflokkum sem teknir eru fyrir í þessari skýrslu miðað við fjölda síðustu sex mánuði á undan. Til að mynda fækkaði tilkynningum um þjófnaði, ofbeldisbrot, eignaspjöll, umferðarlagabrot og færri voru teknir við akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hins vegar fjölgaði innbrotum í nóvember og þar af fjölgaði innbrotum á heimili og ökutæki mikið.

Ofbeldi gagnvart lögreglu eykst

Ekki hafa borist jafn margar tilkynningar um innbrot á einum mánuði frá því í október 2011. Fjölgunin skýrist að einhverju leyti af fleiri tilkynningum um innbrot í geymslur og bílskúra. Einnig hafa fleiri tilkynningar borist um innbrot inn á heimili. Í byrjun desember varaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu við því að mögulega væri erlendur brotahópur kominn hingað til lands  gagngert í þeim tilgangi að brjótast inn.

Af þessu tilefni biður lögreglan íbúa á höfuðborgarsvæðinu að vera vel á verði, gæta að verðmætum, læsa vel húsum sínum og láta vita um grunsamlegar mannaferðir í síma 112. 

Ef innbrotin eru skoðuð eftir hverfum á höfuðborgarsvæðinu þá fjölgar þeim mikið fyrir utan umdæmi lögreglustöðvar 2, það er Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes, en mikið var um innbrot á þessu svæði fyrr á árinu.

Ofbeldisbrotum fækkar á milli mánaða en ofbeldisbrotum gagnvart lögreglumönnum fjölgar aftur á móti. Það sem af er ári hefur ofbeldisbrotum gagnvart lögreglu fjölgað um 48%.

38% fleiri leitarbeiðnir

Í nóvember voru skráð 108 fíkniefnabrot á höfuðborgarsvæðinu og þar af var um þrjú stórfelld brot að ræða. 

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust tíu tilkynningar um kynferðisbrot sem áttu sér stað í nóvember. Það sem af er ári hefur tilkynntum kynferðisbrotum fækkað um 17%.

Alls bárust 45 tilkynningar um heimilisofbeldi í nóvember og lögreglunni bárust 18 beiðnir um leit að börnum og ungmennum í nóvember. Það sem af er ári hafa borist um 38% fleiri leitarbeiðnir en bárust að meðaltali á sama tímabili 2015-17.

Afbrotatölfræði lögreglunnar í heild

mbl.is