Kúrdar og arabar fái kennslu á sínu máli

Á borgarstjórnarfundi í dag hyggst Kolbrún leggja fram tillögu um …
Á borgarstjórnarfundi í dag hyggst Kolbrún leggja fram tillögu um íslenskunámskeið fyrir Kúrda og araba. mbl.is/Eggert

„Mér finnast þessir einstaklingar ekki hafa fengið nægilega skýra fræðslu og skýrar leiðbeiningar. Ég hef áhyggjur af þeim sem ekki eru á vinnumarkaði, þeim hefur ekki tekist að koma sér þangað því þá vantar upplýsingar á sínu tungumáli,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.

Á borgarstjórnarfundi í dag hyggst Kolbrún leggja fram tillögu um íslenskunámskeið fyrir Kúrda og araba á vegum borgarinnar.

Í tillögunni segir að um 100 Kúrdar séu á Íslandi, auk fjölmargra araba sem myndu njóta góðs af því að komast á íslenskunámskeið á eigin tungumáli.

Kolbrúnu finnst sem dæmi að sniðugt væri að bjóða upp á eina kvöldstund fyrir hvern hóp þar sem þessir þjóðfélagshópar fengju allar upplýsingar, svo sem varðandi vinnumarkaðinn og skattamál, á sínu tungumáli. Það myndi bæði koma sér vel fyrir þá og samfélagið allt.

Bæði með belti og axlabönd

„Ef við getum hjálpað þó ekki væri nema hluta af þessum hópi að komast á vinnumarkað, svo þau þurfi ekki að vera á framfærslu, það yrði algerlega frábært. Það eru allt of margir á framfærslu því þeir ná ekki að stíga þetta skref.“

Kolbrún segist þekkja málin vel af eigin hendi þar sem hún hafi starfað sem sálfræðingur fyrir hælisleitendur og þekki einnig marga túlka. „Nú kemur í ljós hvernig fer með tillöguna, hún gæti orðið felld eða henni vísað áfram. En ég er alltaf bæði með belti og axlabönd svo ég er þegar búin að fá fund á föstudag með sérfræðingi í málefnum innflytjenda og flóttafólks á velferðarsviði borgarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert