„Okkur þykir vænt um þau“

Svala Jóhannesdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar.
Svala Jóhannesdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Það leita margir til okkar í kringum jólin og þarfir þeirra sem leita til okkar eru aðeins aðrar en venjulega,“ segir Svala Jóhannesdóttir, verkefnisstýra Frú Ragnheiðar. Heimilislausir og fólk sem glímir við erfiðan fíknivanda fær góðan sálrænan stuðning í bíl Frú Ragnheiðar um hátíðirnar.

Frú Ragnheiður er sérinnréttaður bíll á vegum Rauða krossins í Reykjavík sem fer um götur höfuðborgarsvæðisins sex kvöld í viku frá klukkan 18 til 22 og þjónustar heimilislausa og einstaklinga sem glíma við erfiðan vímuefnavanda.

Fá samband við einhverja sem er ekki sama

Svala segir að um jólin sé starfsemi Frú Ragnheiðar að miklu leyti sálrænn stuðningur. Fólk vilji mikið ræða um fjölskyldu sína og lífið almennt. „Fólk er fyrst og fremst að leita til okkar til að fá samband við einhverja sem er ekki sama um það,“ segir Svala.

Frú Ragnheiður er sérinnréttaður bíll á vegum Rauða krossins í …
Frú Ragnheiður er sérinnréttaður bíll á vegum Rauða krossins í Reykjavík. mbl.is/Hari

Í bílnum fá einstaklingar heilbrigðisþjónustu eins og aðhlynningu sára, umbúðaskipti, saumatöku, sýklalyfjagjöf og almenna heilsufarsskoðun. Einnig er boðið upp á nálaskiptaþjónustu og þá geta einstaklingar sem nota vímuefni í æð komið og sótt sér hreinar nálar, sprautur, nálabox og annað sem þarf til að draga úr líkum á smiti og sýkingum.

Fólki er leiðbeint um öruggari sprautunotkun og tekið er á móti notuðum sprautubúnaði til förgunar. Auk þess fær fólk hlý föt, drykki og mat, sálrænan stuðning og ráðgjöf í bílnum.

Hluti þess útbúnaðar sem má nálgast í bílnum.
Hluti þess útbúnaðar sem má nálgast í bílnum. mbl.is/Hari

Svala segir að þeir skjólstæðingar Frú Ragnheiðar sem geti ekki eða fái ekki að vera með sínum nánustu um jólin upplifi oft mikla sorgartilfinningu vegna þess. Einnig hafa aðstandendur þeirra sem sækja sér þjónustu Frú Ragnheiðar haft samband í kringum hátíðirnar af ýmsum ástæðum.

„Sumir aðstandendur eru að leita að börnunum sínum. Einhverjir þurfa sálrænan stuðning eða leiðbeiningar um hvernig gott væri að viðhalda góðu sambandi við börnin sín eða skyldmenni; til að mynda í kringum jólin,“ segir Svala.

Boðið upp á smákökur og mandarínur

Nokkrum dögum fyrir jól byrja sjálfboðaliðar Frú Ragnheiðar að deila út jólagjöfum en allir sem leita til bílsins fá gjafir; alls verður 70 pökkum útdeilt. „Við reynum alltaf að hafa gjöfina veglega. Í ár er meðal annars inneignarkort frá Dominos, nammi frá Góu, snyrti- og baðvörur og vettlingar frá Varma,“ segir Svala.

„Það er jólalegt hjá okkur en við bjóðum meðal annars upp á smákökur og mandarínur og erum mjög meðvituð um alla aðra þjónustu sem er í boði á þessum tíma. Það getur nefnilega verið afar mikilvægt að aðstoða og leiðbeina fólki í fleiri úrræði um jólin, eins og varðandi hátíðarmat,“ segir Svala.

Teppum og tjalddýnum er útdeilt til heimilislausra.
Teppum og tjalddýnum er útdeilt til heimilislausra. mbl.is/Valgarður Gíslason

Starfsfólk Frú Ragnheiðar byrjaði að kanna um tveimur vikum fyrir jól hvernig jólin verði hjá skjólstæðingum. Fólk sem er líklegt til að verða eitt fær símtal um jólin og fær þá sinn tíma í bílnum.

„Þetta er aðeins þyngri tími“

„Við erum  með smákökur, mat og jólapakka fyrir þau. Við erum í raun að sýna að okkur er ekki sama. Okkur þykir vænt um þau og þetta getur verið mjög erfiður tími, sérstaklega fyrir þennan hóp,“ segir Svala og heldur áfram:

„Þau upplifa hversdagslega útskúfun, að þau séu ekki með í samfélaginu, og á þessum tíma eykst þessi tilfinning mjög mikið. Við erum líka á varðbergi varðandi andlega líðan þeirra, eins og sjálfsvígshættu.“

Bíllinn.
Bíllinn. mbl.is/Hari

Átta leituðu til Frú Ragnheiðar í fyrra og vaktin var þá lengri að sögn Svölu. „Fólk fékk góðan tíma, þurfti mikið að tala og jafnvel gráta. Við hringdum í nokkra daginn eftir og á milli jóla og nýárs til að taka stöðuna hjá þeim. Þetta er aðeins þyngri tími og það er rosalega mikilvægt að við séum til staðar.“

Halda samskiptum ef fólk treystir sér til þess

Svala segir að þeirra ráð varðandi samskipti á milli aðstandenda og einstaklinga með vímuefnavanda sé að ef fólk treysti sér til að halda þeim þá eigi það að gera það. „Þessi líflína milli aðstandenda og einstaklingana skiptir rosalega miklu máli. Á sama tíma leiðbeinir maður alltaf aðstandendum um að þeir verði að finna sín eigin mörk og út frá því reyna að viðhalda sambandinu við einstaklinginn og reyna að vera til staðar út frá því.“

Oft hefur verið bent á að það eigi að loka á þann sem er í neyslu því að öðrum kosti sé aðstandandinn að taka þátt í neyslunni. „Þetta er í raun mýta, það eru engar rannsóknir sem sýna að það sé betra að loka á öll samskipti og hætta allri aðstoð, í raun hafa rannsóknir sýnt þveröfugt,“ segir Svala og bætir við að þeir einstaklingar sem hafi aðstandendur eða vini sem eru til staðar á heilbrigðan hátt, sýni þeim skilning og væntunþykju, eru líklegri til að ná að komast á þann stað að líða betur andlega og líkamlega og jafnvel hætta vímuefnanotkun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert